Enski boltinn

Wenger vorkennir United: „Engin von eftir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mynd sem er lýsandi fyrir ástandið á Old Trafford.
Mynd sem er lýsandi fyrir ástandið á Old Trafford. getty/Robbie Jay Barratt

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal, vorkennir sínum fornu fjendum í Manchester United og segir vonleysið svífi yfir vötnum hjá félaginu.

United laut í lægra haldi fyrir Manchester City, 0-3, í stórleik 10. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. United hefur tapað helmingi leikja sinna í deildinni og er í 8. sæti hennar.

„Ég myndi segja að munurinn milli liðanna hafi aukist eftir því sem á leikinn leið,“ sagði Wenger á beIN Sports.

„Á endanum vorkennir þú svona stóru félagi eins og Manchester United því það er engin von eftir. Ég sé ekki hvar þeir geta bætt sig. Þetta lið hefur glatað sjálfstrausti, gæðum og jafnvel andanum í dag. Það var ekki mikill baráttuandi í United ofan á allt.“

Wenger fannst skrítið að Erik ten Hag, stjóri United, hafi fyrirskipað sínum mönnum að gefa boltann í tíma og ótíma aftur á markvörðinn Andre Onana. Svo fannst Frakkanum United-liðið of sundurslitið.

„Í dag fannst mér þeir mjög slakir í byggja upp spil. Þeir gáfu boltann svo oft á markvörðinn þegar þeir áttu möguleika á að spila fram á við. Ég myndi segja að þetta hafi byrjað það,“ sagði Wenger.

„Hitt vandamálið í dag fannst mér vera að bilið milli framherjans og varnarmannanna var gríðarlega mikið. Þú getur ekki unnið boltann aftur gegn liði eins og Manchester City þegar bilið er svona breitt. Liðið var ekki nógu þétt.“

Næsti leikur United er gegn Fulham á Craven Cottage á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×