Enski boltinn

Finnst United spila nákvæmlega eins hjá Ten Hag og hjá Solskjær og Mourinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag tók við Manchester United fyrir síðasta tímabil.
Erik ten Hag tók við Manchester United fyrir síðasta tímabil. getty/Richard Sellers

Þrátt fyrir að Erik ten Hag hafi bara tekið við Manchester United fyrir einu og hálfu ár finnst Jamie Carragher eins og liðið virðist vera á endastöð. Hann sér ekki mikla breytingu á frammistöðu United undir stjórn Ten Hags og forvera hans í starfi.

United vann FC Kaupmannahöfn, 1-0, í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn og hefur unnið þrjá leiki í röð. Sigrarnir hafa þó verið naumir og frammistaða United ekki sannfærandi.

Gömlu Liverpool-hetjunni Carragher finnst ekki mikið til United-liðsins undir stjórn Ten Hags koma.

„Þegar Ten Hag var ráðinn átti ég von á því að United yrði betrumbætt útgáfa af Ajax. Hann náði mörgum frábærum úrslitum hjá gamla liðinu sínu, sérstaklega í Meistaradeildinni, svo það hefði verið augljóst hvað hann hefði átt að gera með meira fjármagn og betri leikmenn,“ sagði Carragher.

„Hugmyndin hlýtur að hafa verið að innleiða hollenska leikstílinn, hver var annars ástæðan fyrir því að sækja hann? Stjórn United virtist vera með það í huga að það minnsta sem stuðningsmennirnir fara fram á er að liðið sé sókndjarft og spennandi.“

Carragher finnst hann ekki sjá neina breytingu á spilamennsku United undir stjórn Ten Hags og Ole Gunnars Solskjær og Josés Mourinho.

„Enginn fór fram á að Ten Hag myndi búa til meistaralið á einu eða tveimur árum en það var ekki ósanngjarnt að búast við því að uppleggið yrði augljóslega annað en hjá Solskjær og Mourinho. En það er ekki þannig sem það helsta sem er gagnrýnivert. Leikáætlunin er nánast sú sama,“ sagði Carragher.

United mætir Manchester City á Old Trafford í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. United er í 8. sæti deildarinnar en City í 2. sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×