Enski boltinn

Til­finninga­ríkt kvöld fram undan á Old Traf­ford bæði hjá Man. Utd og Orra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Óskarsson í leik með FC Kaupmannahöfn. Hann fær vonandi að spila á móti Manchester United í kvöld.
Orri Óskarsson í leik með FC Kaupmannahöfn. Hann fær vonandi að spila á móti Manchester United í kvöld. Getty/Lars Ronbog

Manchester United og Íslendingaliðið FC Kaupmannahöfn mætast í kvöld á fyrra Meistaradeildarkvöldi vikunnar og það verða mörg augu á þessum leik í Manchester.

United sem félag syrgir þessa dagana eina mestu goðsögnina í sögu félagsins og liðið er jafnframt að reyna að komast aftur á skrið eftir dapurt gengi í haust. Gengið í Meistaradeildinni er áhyggjuefni enda er liðið stigalaust á botni síns riðils.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, talaði fallega um Sir Bobby Charlton heitinn á blaðamannafundi fyrir leikinn. Hann vonast til þess að Sir Bobby geti gefið leikmönnum innblástur til að komast loksins á blað í Meistaradeildinni.

Orri Steinn Óskarsson og félagar í danska liðinu FCK mæta á Old Trafford í kvöld í þriðju umferð riðlakeppninnar í Meistaradeildinni en þetta verður fyrsti heimaleikur Manchester United síðan að Charlton féll frá 86 ára gamall.

Charlton er af mörgum talinn besti leikmaðurinn í sögu Manchester United en hann var bæði hluti af Busby babes liðinu sem og liðinu sem reis upp eftir flugslysið í München og vann Evrópukeppni meistaraliða tíu árum síðar.

Ten Hag býst við tilfinningaríku kvöldi á Old Trafford og segir að Bobby verði með þeim í anda í þessum leik.

„Hann gefur okkur mikinn innblástur á hverjum degi,“ sagði Erik ten Hag.

„Hann er hér fyrir framan Old Trafford með þeim Denis Law og George Best [stytta]. Hann er alltaf með okkur. Ég er viss um að þetta verður tilfinningaríkt kvöld,“ sagði Ten Hag.

Íslenski landsliðsframherjinn Orri Steinn hefur ekkert farið leynt með það að hann er stuðningsmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Þetta verður því sérstök stund fyrir hann að fá mögulega spila á Old Trafford leikvanginum.

Orri Steinn skoraði þrjú mörk í undankeppni Meistaradeildarinnar en hefur bara fengið 30 mínútur í Meistaradeildarleikjum liðsins. Það væri mjög gaman fyrir þennan stórefnilega framherja ef Orri fengi að upplifa það að spila á móti United í meistaradeildinni á Old Trafford.

FCK er stigi á undan Manchester United í riðlinum en efstu liðin eru Bayern München og Galatasaray.

Leikurinn hefst klukkan 19.00 og verður sýndur beint á Vodafone Sport. Útsending hefst klukkan 18.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×