Enski boltinn

Enginn hafi haft jafn mikil áhrif og Maddison

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Maddison er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Tottenham.
James Maddison er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Tottenham. getty/Alex Pantling

Enginn leikmaður hefur haft meiri áhrif í ensku úrvalsdeildinni í vetur en James Maddison hjá Tottenham. Þetta segir sparkspekingurinn Jamie Carragher.

Maddison skoraði í 2-0 sigri Tottenham á Fulham í gær. Með sigrinum endurheimti Spurs toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Tottenham keypti Maddison frá Leicester City fyrir tímabilið og enski landsliðsmaðurinn hefur byrjað frábærlega hjá nýja félaginu. Hann hefur skorað fjögur mörk og gefið fimm stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Carragher er afar hrifinn af því sem Maddison hefur gert hjá Spurs og segir að líklega hafi enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni haft meiri áhrif en hann.

„Hann hefur átt það stóran þátt í að breyta Spurs. Það verður að hrósa stjóranum [Ange Postecoglou]. Þetta er hans hugsun og leikstíll. En hann [Maddison] hefur átt stóran þátt í að breyta því,“ sagði Carragher á Sky Sports í gær.

„Hann kom inn og tók treyju númer tíu sem Harry Kane var með. Sennilega besti leikmaður í sögu Tottenham.“

Maddison og félagar hafa náð í 23 stig í fyrstu níu leikjum tímabilsins. Byrjunin er söguleg en síðan enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar 1992 hefur enginn stjóri fengið fleiri stig í fyrstu níu leikjum sínum en Postecoglu.

Næsti leikur Tottenham er gegn Crystal Palace á Selhurst Park á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×