Enski boltinn

Man. City heiðrar fyrir­liða þrennuliðsins með mósaík á æfinga­svæðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ilkay Gundogan lyftir hér Meistaradeildarbikarnum í vor.
Ilkay Gundogan lyftir hér Meistaradeildarbikarnum í vor. Getty/Nicolò Campo

Ilkay Gundogan kvaddi Manchester City í sumar eftir magnað tímabil þar sem hann sem fyrirliði liðsins tók við þremur stórum bikurum þar sem City vann hina eftirsóttu þrennu.

Gundogan gerði hins vegar ekki nýjan samning við City heldur samdi frekar við spænska liðið Barcelona.

Gundogan var í miklu stuði undir lok síðasta tímabils þegar City var að elta þrennuna. Hann skoraði meðal annars sigurmarkið á móti Manchester United í bikarúrslitaleiknum.

Tímabilið á undan voru það tvö mörk frá Gundogan sem breyttu örlögum City liðsins í mikilvægum leik á móti Aston Villa í lokaumferðinni.

Gundogan endaði á því að vinna ensku deildina fimm sinnum á sjö tímabilum sínum hjá Manchester City auk þess að verða tvisvar bikarmeistari og fjórum sinnum enskur deildameistari. Liðið vann síðan langþráðan sigur í Meistaradeildinni í vor.

Manchester City ákvað að heiðra Ilkay Gundogan á sérstakan hátt eða með því að setja upp mósaíkmynd af honum á æfingasvæðinu, Etihad Campus.

„Þú hefur verið mikilvægur leiðtogi og máttarstólpi í sögu þessa félags og því munum við aldrei gleyma,“ sagði stjórnarformaðurinn Khaldoon al-Mubarak.

„Við erum svo þakklát fyrir allar minningarnar sem þú gafst okkur sem fyrsti fyrirliði Manchester City til að lyfta Meistaradeildarbikarnum, leikmaður sem vann ensku deildina fimm sinnum og alla þessa bikara á ferðalagi þínu með félaginu,“ sagði Al-Mubarak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×