Enski boltinn

Man. City for­dæmir níð­söngva stuðnings­manna sinna um Sir Bobby Charlton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United goðsögnin Sir Bobby Charlton var 86 ára gamall þegar hann lést um helgina.
Manchester United goðsögnin Sir Bobby Charlton var 86 ára gamall þegar hann lést um helgina. EPA-EFE/FRANCK ROBICHON

Manchester City ætlar að leita uppi þá aðila úr stuðningsmannahópi félagsins sem urðu vísir að því að syngja óskemmtilega söngva um Manchester United goðsögnina Sir Bobby Charlton sem lést um helgina.

Forráðamenn City fordæma hegðun þessa litla hóps stuðningsmanna sinna og mun beita þá viðurlögum.

Charlton lést á laugardaginn 86 ára gamall. Hann er stærsta hetjan í sögu Manchester United, nágranna Manchester City.

Söngvarnir heyrðust á meðan leik Manchester City og Brighton and Hove Albion stóð yfir. City sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með það sem fór fram í stúkunni.

Manchester City fordæmir þar þessa níðsöngva stuðningsmanna sinna um Sir Bobby Charlton og kallar eftir öllum upplýsingum sem geta hjálpað félaginu að leita þá uppi.

Félagið mun skoða öryggismyndbönd sem munu hjálpa til að finna þessa aðila og notaði líka tækifærið og þakkaði þeim fyrir sem höfðu komið upplýsingum um þessa hegðun á framfæri við félagið.

Enska úrvalsdeildin sendi líka frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að menn þar á bæ hafi blöskrað að heyra af þessum níðsöngvum. Forráðamenn deildarinnar fagna því hvernig City hefur tekið á þessu máli og mun bæði aðstoða félagið sem og styðja aðgerðir City vegna málsins.

Manchester United mun taka á móti Manchester City í næsta heimaleik sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann fer fram 29. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×