Enski boltinn

Segir að Sjeikinn ætti að kaupa Liverpool til að hefna sín á United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool og Manchester United eru sigursælustu lið enskrar fótboltasögu. Eignarhald beggja félaga hefur verið talsvert í umræðunni undanfarin misseri.
Liverpool og Manchester United eru sigursælustu lið enskrar fótboltasögu. Eignarhald beggja félaga hefur verið talsvert í umræðunni undanfarin misseri. getty/Michael Regan

Sjeik Jassim ætti að kaupa Liverpool til að hefna sín á Manchester United eftir að honum mistókst að kaupa félagið. Þessari hugmynd var varpað fram í hlaðvarpi Daily Mail, It's All Kicking Off.

Sjeikinn gafst upp á að kaupa United eftir að Glazer-fjölskyldan vildi ekki selja honum það. Í staðinn mun Sir Jim Ratcliffe væntanlega kaupa fjórðungshlut í United.

Rætt var um hringavitleysuna í kringum eignarhald United í hlaðvarpinu It's All Kicking Off sem Daily Mail heldur úti. Blaðamaðurinn Mike Keegan sagði að Sjeikinn ætti að ná sér niður á Glazer-fjölskyldunni með því að kaupa erkióvininn í Liverpool.

„Katararnir settu til hliðar rúmlega sex og hálfan milljarð punda fyrir United. Sá peningur er enn þarna og bíður þess að vera notaður. Það yrði sannarlega saga til næsta bæjar ef þeir myndu kaupa Liverpool,“ sagði Keegan.

„Hvað væri betra fyrir þá en að kaupa helstu andstæðingana og setja allan peninginn sem þeir ætluðu að setja í Manchester United til að láta þá sjá eftir að hafa ekki selt þér félagið.“

Eigendur Liverpool, Fenway Sports Group, settu félagið á sölu í nóvember á síðasta ári. Í febrúar sagði eigandinn John Henry hins vegar að Liverpool væri ekki til sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×