Enski boltinn

Lífvörður Salahs leysir frá skjóðunni: „Þetta gæti gert hann veikan eða drepið hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þúsundir fylgjast með hverju fótmáli Mohameds Salah.
Þúsundir fylgjast með hverju fótmáli Mohameds Salah. getty/Steven Paston

Lífvörður eins þekktasta og besta fótboltamanns heims hefur sagt frá því hvað hann gerir til að tryggja öryggi skjólstæðings síns.

Karim Abdou er lífvörður Mohameds Salah, leikmanns Liverpool og egypska landsliðsins. Í hlaðvarpinu 5ASide greindi hann frá því hvað hann gerir til að halda Salah öruggum.

„Allar gjafir eru skannaðar. Við tökum venjulega ekki við gjöfum en ef ég tek við þeim frá fólki verður að skanna þær. Þú veist aldrei hvað leynist í gjöf. Þetta gæti gert hann veikan eða drepið hann. Þú veist aldrei,“ sagði Abdou.

Frægð Salahs náði hátindi eftir að hann skoraði fyrir Liverpool gegn Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir fjórum árum.

„Brjálaðasti tíminn var þegar hann vann Meistaradeildina. Það var Eid og þúsundir söfnuðust saman úti á götum því þetta er eins og jólin þarna. Hann átti að biðja með öllum úti á götum. Hann var nýbúinn að vinna Meistaradeildina svo allir vildu taka myndir af sér með honum,“ sagði Abdou.

„Allir egypskir fjölmiðlar voru þarna. Þetta var eins og úrslitaleikur HM. Þeir söfnuðust saman fyrir utan húsið hans. Hann komst ekki út úr húsi. Þeir reyndu að koma honum út bakdyramegin en gátu það ekki.“

Salah er þjóðhetja í Egyptalandi, ekki bara vegna afreka sinna á fótboltavellinum heldur einnig vegna þátttöku sinnar í hvers kyns góðgerðarstarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×