Enski boltinn

Þjálfari rekinn út af fyrir að fella leikmann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Athæfi Keiths Millen vakti mikla athygli um helgina.
Athæfi Keiths Millen vakti mikla athygli um helgina. getty/Leila Coker

Knattspyrnustjóra Gillingham hljóp full mikið kapp í kinn leik gegn Wallsall í ensku D-deildinni á laugardaginn.

Á 28. mínútu, þegar staðan var markalaus, fór boltinn út af við varamannabekk Gillingham. Tom Knowles, kantmaður Wallsall, sótti boltann og ætlaði að vera snöggur að taka innkast.

Það tókst ekki því Keith Millen, stjóri Gillingham, brá fæti fyrir Knowles sem féll til jarðar.

Dómari leiksins, Charles Breakspear, átti engra annarra kosta völ en að reka Millen út af fyrir felluna.

Hvort sem það var vegna fjarveru Millens eða ekki fór allt fjandans til hjá Gillingham eftir að hann var rekinn út af. Wallsall skoraði fjögur mörk en Gillingham aðeins eitt og öruggur sigur heimamanna staðreynd. Gillingham er í 7. sæti ensku D-deildarinnar en Wallsall í því þrettánda.

Millen var ráðinn stjóri Gillingham til bráðabirgða í byrjun mánaðarins eftir að Neil Harris var látinn taka pokann sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×