Enski boltinn

Andros Townsend skrifar undir hjá Luton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andros Townsend lék síðast með Everton en hefur ekki spilað í rúma 18 mánuði
Andros Townsend lék síðast með Everton en hefur ekki spilað í rúma 18 mánuði

Enska úrvalsdeildarliðið Luton Town hefur gengið frá skammtímasamningi við fyrrum enska landsliðsmanninn Andros Townsend. Leikmaðurinn hefur verið án félags síðan samningur hans við Everton rann út í sumar. 

Andros Townsend gekk meiddur af velli í 8-liða úrslitum FA bikarsins þann 20. mars 2022, Crystal Palace vann Everton að endingu 4-0 og leikmaðurinn hefur ekki spilað síðan þá. Fljótlega kom í ljós að um alvarleg krossbandsslit væri að ræða og Townsend hefur verið frá keppni í rúmlega 18 mánúði. 

Townsend æfði í sumar með öðrum nýliðum deildarinnar, Burnley, talið var að þar myndi hann skrifa undir en Burnley dró sig úr samningaviðræðum rétt áður en tímabilið hófst. Hann fór í kjölfarið að æfa með heimabæjarliði sínu Luton og hefur nú skrifað undir samning við félagið fram í janúar á næsta ári. 

Luton menn þurfa nauðsynlega á liðsstyrk að halda en liðið hefur aðeins sótt fjögur stig úr fyrstu átta leikjum sínum og situr í 17. sæti deildarinnar.

„Luton er mitt heimabæjarlið, ég bý 20-25 mínútum frá og hef fylgst með gengi þeirra síðustu ár. Ég bjóst aldrei við því að klæðast Luton treyjunni sjálfur, en þetta er mikill heiður að spila með þeim í ensku úrvalsdeildinni og vonandi get ég hjálpað liðinu að ná eins mörgum stigum og mögulegt er“ sagði Andros Townsend um sitt nýja lið. 

Það verður spennandi að fylgjast með leikmanninum stíga upp úr þessum erfiðu meiðslum, en hann á fínan feril sér að baki og hefur leikið fyrir Tottenham, Newcastle, Crystal Palace, Everton og enska landsliðið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×