Handbolti

FH-ingar mörðu nýliðana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jóhannes Berg Andrason skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason skoraði átta mörk fyrir FH í kvöld. Vísir/Diego

FH vann nauman tveggja marka sigur, 24-22, er liðið tók á móti nýliðum HK í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var lítið skoraði í kvöld og eftir átta mínútur var staðan aðeins 2-0, FH í vil. Gestirnir í HK áttu þá góðan sprett og náðu mest fjögurra marka forskoti í stöðunni 6-10 þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, en FH-ingar klóruðu í bakkann fyrir hlé og staðan var 9-11 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

HK-ingar héldu forystunni fyrstu mínúturnar í fyrri hálfleik, en heimamenn tóku forystuna á ný þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka. FH-ingar létu forystuna aldrei af hendi eftir það og unnu að lokum nauman tveggja marka sigur, 24-22.

Jóhannes Berg Andrason var markahæstur í liði FH-inga með átta mörk, en í liði gestanna var Sigurður Jefferson Guarino atkvæðamestur með fimm. Markmenn beggja liða stálu þó senunni í kvöld því Sigurjón Guðmundsson varði 15 skot í marki HK og Daníel Freyr Andrésson var með 17 varin skot í marki FH-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×