Enski boltinn

Carragher segir hæpið að Liverpool berjist um titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liverpool er með spennandi lið að mati Jamies Carragher en ekki nógu sterkt til að berjast um Englandsmeistaratitilinn.
Liverpool er með spennandi lið að mati Jamies Carragher en ekki nógu sterkt til að berjast um Englandsmeistaratitilinn. getty/John Powell

Jamie Carragher, sparkspekingur og fyrrverandi leikmaður Liverpool, er efins um að liðið geti barist um Englandsmeistaratitilinn. Hann segir að Liverpool þurfi að styrkja tvær stöður til þess.

Liverpool gerði 2-2 jafntefli við Brighton á útivelli í gær. Liðið er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sautján stig, þremur stigum á eftir Tottenham og Arsenal sem eru í efstu tveimur sætunum.

Þrátt fyrir góða stöðu í deildinni hefur Carragher efasemdir um að Liverpool geti orðið Englandsmeistari.

„Hvort þeir geti unnið stærsta titilinn sem er enska úrvalsdeildin held ég að verði erfitt. Liverpool gæti gert það á næsta tímabili með tveimur viðbótum,“ sagði Carragher.

„Ég held að Liverpool vanti topp miðjumann og kannski annan varnarmann. Þessar stöður verða fylltar, hvort sem það verður í janúar eða í sumar, og ég held að þeir verði betur í stakk búnir til að berjast um Englandsmeistaratitilinn á næsta tímabili.“

Þrátt fyrir að Carragher telji að leikmannahópur Liverpool sé ekki alveg nógu sterkur til að berjast um enska meistaratitilinn er hann ánægður með hvernig liðið hefur byrjað tímabilið.

„Byrjunin á tímabilinu hefur verið lofandi. Og það lítur þannig út að liðið sem hann [Jürgen Klopp] er að smíða geti vonandi afrekað það sem fyrri liðin hans hafa gert,“ sagði Carragher.

Næsti leikur Liverpool er grannaslagur gegn Everton laugardaginn 21. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×