Enski boltinn

Guardiola um rifrildið eftir leik í gær: Arsenal menn vita ástæðuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta og Pep Guardiola unnu lengi saman hjá Manchester City en keppa nú um titilinn.
Mikel Arteta og Pep Guardiola unnu lengi saman hjá Manchester City en keppa nú um titilinn. Getty/Lexy Ilsley

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, neitaði að segja frá því um hvað menn voru að rífast eftir stórleik Arsenal og Manchester City í gær.

Arsenal vann leikinn 1-0 en eftir leik voru ósætti í gangi á milli Kyle Walker, varnarmanns City, og Nicolas Jover, sem er sér um föstu leikatriðin hjá Arsenal.

Gabriel Martinelli hafði tryggt Arsenal 1-0 sigur með marki á 86. mínútu leiksins en með sigrinum komst Arsenal upp fyrir Manchester City og upp að hið Tottenham á toppnum.

Manchester City er dottið niður í þriðja sætið en liðið tapaði þarna öðrum deildarleik sínum í röð.

Walker var ósáttur með Jover sem vann áður hjá Manchester City og það sauð upp úr á milli þeirra á leið til búningsklefa. Jover bauð fram hönd sína en Walker neitaði að taka í höndina á honum. Erling Haaland togaði Walker síðan í burtu og Bukayo Saka reyndi að gera hið sama með Jover.

Pep Guardiola var spurður út í atvikið eftir leikinn. „Ég veit hvað gerðist en ég ætla ekki að segja neitt. Arsenal menn vita ástæðuna,“ sagði Pep Guardiola.

„Ekkert lið hefur unnið fjóra meistaratitla í röð. Lið geta tapað leikjum en við erum enn í október. Stundum er gott að lenda á eftir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lið sem er spáð titlinum lendir í því að elta. Við vorum mikið að elta á síðasta tímabili en tímabilið er langt,“ sagði Guardiola.

„Þetta var erfiður leikur hjá okkur á móti Wolves. Ég vil óska Arsenal til hamingju. Við vitum nákvæmlega hvað við þurfum að gera og við munum geta það. Við munum fá leikmenn aftur til baka og reynum að enda taphrinuna eins fljótt og hægt er á móti liðum eins og Brighton og [Manchester] United,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×