Enski boltinn

Dæmdur í leikbann fyrir dónaskap í garð dómara

Smári Jökull Jónsson skrifar
James ásamt Todd Boehly eiganda Chelsea.
James ásamt Todd Boehly eiganda Chelsea. Vísir/Getty

Fyrirliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni hefur verið dæmdur í eins leiks bann vegna slæmrar framkomu í garð dómara eftir tap Chelsea gegn Aston Villa í síðasta mánuði.

James var gerður að fyrirliða Chelsea í sumar en hann hefur nú þegar misst af átta leikjum á tímabilinu eftir að hafa meiðst á æfingu í ágúst.

Hann var því ekki á meðal leikmanna liðsins í áðurnefndum leik gegn Aston Villa en það stoppaði hann þó ekki í því að eiga orðastað við dómarann að leik loknum. Þegar James mætti dómarateyminu á göngum Stamford Bridge lét hann Jarred Gillet og samstarfsmenn hans heyra það og enska knattspyrnusambandið var allt annað en sátt með framkomu James.

Hann hefur nú verið dæmdur í eins leiks bann fyrir að nota óviðeigandi og móðgandi orð gagnvart dómarateyminu en James viðurkenndi brot sitt. James getur því ekki verið með liði Chelsea í leik liðsins gegn Burnley þó hann yrði orðinn heill heilsu.

Chelsea hefur verið í vandræðum með hægri bakvarðastöðuna í fjarveru James en Malo Gusto fékk rautt í leiknum gegn Villa og fór í leikbann í kjölfarið. Marc Cucurella lék í hægri bakverðinum í sigurleiknum gegn Fulham en Levi Colwill leysti stöðuna hinum megin í fjarveru Ben Chilwell.

Chelsea vonast til að James verði kominn aftur í liðið þegar liðið mætir Arsenal þann 21. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×