Enski boltinn

Liver­pool vill fá að heyra sam­töl dómaranna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Diaz sér rangstöðuflaggið fara á loft en VAR gerði mistök með að leiðrétta það ekki.
Luis Diaz sér rangstöðuflaggið fara á loft en VAR gerði mistök með að leiðrétta það ekki. Getty/Ryan Pierse

Liverpool er hreinlega ekki tilbúið að sætta sig við útkomu helgarinnar þar sem löglegt mark var dæmt af liðinu í fyrsta tap liðsins á leiktíðinni.

Liverpool pressar nú á ensku úrvalsdeildina að fá að heyra upptökur af samtölum dómarana þegar þeir dæmdu mark Luis Diaz af sem hefði þá komið Liverpool í 1-0 á móti Tottenham.

Tottenham vann leikinn á endanum 2-1 með sjálfsmarki á lokasekúndum leiksins en Liverpool liðið var þá orðið níu á móti ellefu eftir að tveir leikmenn liðsins höfðu fengið rautt spjald.

The Telegraph heldur því fram að Howard Webb, yfirmaður dómara, ætli að láta undan þrýstingi Liverpool og opinbera samskipti dómara og myndbandadómara í atvikinu.

Enska úrvalsdeildin hafði þegar gefið út yfirlýsingu að það hafi verið alvarleg mannleg mistök að dæma markið ekki gilt. Dómararnir sem áttu í hlut voru líka settir í skammakrókinn. Darren England og Dan Cook voru myndbandadómarar og Michael Oliver var síðan fjórði dómarinn.

Liverpool hefur einnig kallað eftir rannsókn með fullu gagnsæi og lýsti því yfir að félagið ætlar að skoða það að leitar enn frekar réttar síns í þessu máli þar sem þarna hafi verið grafið undir heiðarleika íþróttanna.

Margir hafa gagnrýnt Liverpool fyrir að fara þessa leið enda erfitt að sjá það fyrir að félagið hafi eitthvað upp úr því að draga þetta mál á langinn.

Það er hins vegar full áhersla til þess að enska úrvalsdeildin taki upp betri vinnubrögð þegar kemur að myndbandadómgæslu enda virðast Englendingar vera í miklu meiri vandræðum með VAR en aðrar þjóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×