Mikil eftirvænting ríkir fyrir endurkomu Arons í íslenska boltann. Skömmu fyrir jól í fyrra var greint frá því að hann myndi snúa aftur heim til FH fyrir þetta tímabil.
Aron átti glæsilegan feril í atvinnumennsku með Kiel, Veszprém, Barcelona og Álaborg. Hann vann titla með öllum liðunum, þar á meðal Meistaradeild Evrópu í þrígang. Hafnfirðingurinn er einn sigursælasti handboltamaður sögunnar.
Aron er nú fluttur aftur heim í Hafnarfjörðinn og spennan fyrir fyrsta leik hans í treyju FH hefur aukist jafnt og þétt. Víst er að margir FH-ingar og handboltaáhugafólk hefur merkt við 7. september 2023 á dagatalinu en þá tekur FH á móti Aftureldingu í 1. umferð Olís-deildarinnar.
Sá dagur er nú runninn upp og Aron spilar í kvöld sinn fyrsta leik fyrir FH síðan 12. mars 2009, eða í fjórtán og hálft ár, nánar tiltekið 5.293 daga.
Þann 12. mars 2009 tapaði FH fyrir Val í Kaplakrika, 27-32. Aron skoraði sex mörk í leiknum og var næstmarkahæstur í liði FH á eftir Bjarna Fritzsyni sem skoraði níu mörk.
Auk Arons eru tveir leikmenn sem léku með FH í leiknum í herbúðum liðsins í dag; markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson, sem sneri heim í sumar eftir dvöl í atvinnumennsku, og Ásbjörn Friðriksson sem hefur leikið samfleytt með FH síðan 2008, ef frá er talið eitt tímabil í Svíþjóð.
Ásbjörn skoraði tvö mörk í leiknum gegn Val, líkt og Sigursteinn Arndal, núverandi þjálfari FH.

Tímabilið 2008-09 var eina tímabil Arons í efstu deild áður en hann hélt utan. Hann skoraði 115 mörk í sextán leikjum og var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar og besti sóknarmaður hennar. FH endaði í 5. sæti deildarinnar og komst ekki í úrslitakeppnina.
FH mun gera talsvert betur í vetur, allavega ef marka má spá forráðamanna liðanna í Olís-deildinni. FH-ingum er nefnilega spáð sigri í henni.
Leikur FH og Aftureldingar hefst klukkan 19:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.