Enski boltinn

Al-Itti­had ætlar sér Salah sem yrði launa­hærri en Ron­aldo

Smári Jökull Jónsson skrifar
Salah á æfingu með Liverpool.
Salah á æfingu með Liverpool. Vísir/Getty

Sádiarabíska félagið Al-Ittihad er tilbúið að gera Mohamed Salah að launahæsta knattspyrnumanni í heimi. Heimildamaður Skysports segir Egyptan tilbúinn til að hlusta á hvað félagið hefur að bjóða.

Mohamed Salah skrifaði undir samning við Liverpool sumarið 2022 og á enn tvö ár eftir af þeim samninigi. Hann hefur verið á lista hjá Al-Ittihad um nokkurt skeið og nú hefur Skysports greint frá því að félagið sé tilbúið að gera hann að launahæsta knattspyrnumanni í heimi.

Félagið hefur gert tilraunir til að næla í Salah fyrr í félagaskiptaglugganum en öllum viðræðum hefur verið hafnað af forráðamönnum Liverpool. Skysports greinir frá því að einn heimildamaður miðilsins vilji meina að nú vilji Salah skoða hvað Al-Ittihad hafi að bjóða.

Umboðsmaður Salah Remy Abbas Issa sagði fyrr í mánuðinum að Salah væri skuldbundinn Liverpool og að hann væri ekki á förum.

Al-Ittihad hefur nú þegar fest kaup á Karim Benzema, Fabinho og N´Golo Kante. Þeir fengu einnig Jota til liðs við sig frá Celtic en nú þegar eru uppi sögusagnir um að hann sé á útleið. Forráðamenn sádiarabíska félagsins vilja Salah í hans stað.

„Þá hefur versta martröð Klopp orðið að veruleika“

Það sem gerir Liverpool ögn erfiðara um vik er að félagaskiptaglugginn í Sádi Arabíu er opinn lengur en á Englandi. Komi tilboð sem félagið getur ekki hafnað eftir að glugginn lokar, getur félagið ekki fundið mann í stað Salah.

„Ég held að Salah sé bara ekki til sölu. Hann er hæstlaunaðasti leikmaður Liverpool. Það síðasta sem Jurgen Klopp vill er að missa hann svona seint í glugganum. Klopp sagði nýlega að hann væri óánægður með að glugginn í Sádi Arabíu væri opinn svona lengi eftir að sá enski lokar,“ segir Kaveh Solhekol fréttamaður Skysports.

„Ef Al-Ittihad gerir tilboð í Salah eftir að glugginn lokar þá hefur versta martröð Klopp orðið að veruleika.“

„Við höfum séð þetta aftur og aftur í sumar. Sádísk félög eru með skotmörk og henda peningum í átt að þeim. Við erum að tala um ótrúlegar upphæðir. Okkur hefur verið sagt að sumir leikmannanna sem eru tregir að flytja sig um set fái þau skilaboð að þeir geti fengið helming samningsins greiddan strax og það skattlaust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×