Enski boltinn

Jesus í aðgerð og missir af byrjun tímabilsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gabriel Jesus skoraði ellefu mörk fyrir Arsenal á síðasta tímabili.
Gabriel Jesus skoraði ellefu mörk fyrir Arsenal á síðasta tímabili. getty/David Price

Gabriel Jesus, framherji Arsenal, missir af byrjun tímabilsins eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné.

Brasilíski framherjinn lék ekki með Arsenal þegar liðið mætti Monaco í Emirates bikarnum í gær og eftir leikinn staðfesti Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Skyttanna, að Jesus hefði gengist undir aðgerð í gærmorgun og yrði frá næstu vikurnar. Arsenal vann Monaco eftir vítaspyrnukeppni, 5-4.

„Því miður fór hann í smá aðgerð í morgun. Hann fann fyrir óþægindum í hnénu sem hafa gert honum erfitt fyrir og það þurfti að laga það,“ sagði Arteta.

„Þetta er ekkert alvarlegt en hann verður frá í nokkrar vikur held ég. Þetta er mikið áfall því hann var að komast í sitt besta form eins og hann spilaði gegn Barcelona.“

Arsenal mætir Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn á sunnudaginn. Laugardaginn 12. ágúst etur Arsenal svo kappi við Nottingham Forest í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Jesus, sem er 26 ára, gekk í raðir Arsenal frá City fyrir síðasta tímabil. Þá enduðu Skytturnar í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×