Tónlist

Acox: Sótti inn­blástur í Dra­ke í sínum fyrstu lögum

Aron Guðmundsson skrifar
Acox sendi frá sér sína fyrstu smáskífu á dögunum
Acox sendi frá sér sína fyrstu smáskífu á dögunum Aðsend mynd

Kristófer Acox hefur haft í nægu að snúast undan­farna mánuði á meðan körfu­bolta­deildin hér heima er í fríi. Á dögunum opin­beraði hann ó­vænta hlið á sér er hann gaf út smá­skífuna Bjartar nætur undir lista­manns­nafninu Acox.

Smá­skífan inni­heldur tvö lög, Hún vill koma nær og Fyrir þig. Kristófer segir að lista­­maðurinn hafi kannski blundað innst innra með sér í ein­hvern tíma.

„Þetta er eitt­hvað sem við byrjuðum að leika okkur með í fyrra og eftir síðasta tíma­bil hefur maður haft meiri frí­­tíma til þess pæla að­eins í þessu. Þetta byrjaði sem smá djók en hefur nú endað í lögum sem við á­kváðum að gefa út. Ég er bara mjög stoltur af því að hafa stigið svo­lítið út fyrir minn þæginda­ramma og leyft fólki að sjá aðra hlið á mér.“

Ó­­víst sé þó á þessari stundu hvort þetta sé eitt­hvað sem hann muni taka sér fyrir hendur. „En það er aldrei að vita, ég er alla­vega mjög á­­nægður með þetta.“

Hvaðan ertu að sækja inn­blásturinn í þessi lög sem prýða smá­­skífuna?

„Frá því að ég var ungur strákur hef ég alltaf verið með tón­list í gangi í kringum mig, hlustað mikið á rapp sem og R&B tón­list. Þetta eru tvö mis­munandi lög, Hún vill koma nær er kannski svona meira sumar­hittari með dans­fíling og skír­­skotun í popp en í Fyrir þig sæki ég inn­blástur í einn af mínum upp­­á­halds lista­­mönnum, Dra­ke.

Ég er mikill Dra­ke-maður og er í sama gír og Jón Bjarni, Ás­­geir og strákarnir sem eru að vinna þetta með mér. Þetta er svona svipað sound, sem maður er kannski ekki alveg vanur að heyra, sér í lagi á ís­­lensku. Þetta er eitt­hvað sem er skemmti­­legt að geta nýtt mína djúpu rödd í. Ég hef alltaf vitað að ég gæti sungið, kannski ekki margir sem héldu að ég gæti það en hérna er ég að stíga fram.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×