Þegar síðustu tölur voru birtar á vef Angling.is var veiðin í Langá 215 laxar og fannst mörgum það ískyggilega lágt og þá sérstaklega miðað við hvað það var mikið af laxi á svæðinu fyrir neðan Skugga og laxastigann. Það kom svo í ljós þegar að var gáð og vatnið tekið af laxastiganum og grjót lokaði að mestu rörinu við neðsta þrepið í stiganum svo það var einfaldlega þannig að laxinn komst með erfiðismunum í gegn. Ofan á þetta var teljarinn óvirkur og þess vegna engin leið að segja hvað gangan upp stigann er stór. Já þetta hljómar voða heppilega en þetta er engu að síður staðan.

Í kjölfarið á því að stiginn var lagaður, ekki bara var grjótið fjarlægt heldur gert "V" í vegginn á neðsta þrepinu þá fór þessi lax sem var búinn að safnast upp fyrir neðan Skugga upp og það með nokkrum látum. Þetta var 19. júlí. Veiðin á svæðunum fyrir ofan var búin að vera róleg en breyttist mjög hratt. Undirritaður var til að mynda við leiðsögn og veiðar til 21. júlí í ánni og á tveimur vöktum lönduðu tvær stangir 13 löxum og misstu 6. Þetta varð síðan bara betra. 22. júlí eru bókaðir 32 laxar á land þann dag og veiðin komin úr 215 löxum upp í 336 laxa þegar að var gáð í morgun. Vikuveiðin er því komin í 126 laxa sem er bara virkilega góð vika.

Það er engin að halda því fram að þetta verði eitthvað metár en það virðist vera meira af laxi í ánni en flestir áttu von á og áratugareynsla undirritaðs af ánni segir mér að hún gæti endað í 800-900 löxum sem er auðvitað minna en maður vill en í það minnsta ekki afleitt ár. Við erum ekki að fá annað 2014 í Langá...
...fjúkk!