Enski boltinn

Arnór og félagar beðnir um að borga sjálfir fyrir flugið heim úr æfingaferð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blackburn endaði í 7. sæti ensku B-deildarinnar á síðasta tímabili.
Blackburn endaði í 7. sæti ensku B-deildarinnar á síðasta tímabili. getty/Andrew Kearns

Enska B-deildarfélagið Blackburn Rovers, sem Arnór Sigurðsson leikur með, er í miklum fjárhagserfiðleikum, svo miklum að leikmenn þess voru beðnir um að borga sjálfir fyrir flugið heim úr æfingaferð.

Í síðustu viku var Blackburn í æfingaferð í Austurríki. Liðið fékk ekki beint flug heim til Englands og þurfti að dvelja í Frankfurt yfir nótt.

Aðeins nokkur sæti voru laus í vélinni til Englands daginn eftir og þau kostuðu sitt. Leikmenn Blackburn fengu því tvo kosti, að borga sjálfir fyrir flugið heim eða vera auka nótt í Frankfurt.

Nokkrir eldri leikmenn borguðu sjálfir fyrir flugið heim til Englands en þeir yngri héldu kyrru fyrir í Frankfurt.

Arnór gekk í raðir Blackburn á láni frá CSKA Moskvu fyrr í sumar. Lánssamningurinn er til eins árs.

Sem fyrr sagði er fjárhagsstaða Blackburn afar slæm. Hún gæti þó lagast ef félagið selur miðvörðinn unga, Ashley Phillips, en talið er að hann muni kosta tæplega fimm milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×