Tónlist

Frumsýning á Vísi: Cell7 og Moses Hightower í eina sæng

Máni Snær Þorláksson skrifar
Plötuumslagið fyrir lagið Thinking Hard með Cell7 og Moses Hightower
Plötuumslagið fyrir lagið Thinking Hard með Cell7 og Moses Hightower

Rapparinn og söngkonan Cell7, sem heitir réttu nafni Ragna Kjartansdóttir, og hljómsveitin Moses Hightower gáfu í dag út lagið Thinking Hard. Meðfram laginu gefa þau út tónlistarmyndband sem frumsýnt er hér á Vísi.

Þetta er í fyrsta skipti sem Cell7 og Moses Hightower gefa út efni saman, einnig er þetta í fyrsta skipti sem Moses Hightower gefur út lag á enskri tungu. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem þau sameina krafta sína því meðlimir hljómsveitarinnar voru tónleikaband Cell7 hér á árum áður. Þau segja að samstarfið sé þess vegna vægast sagt bæði nærtækt og tímabært.

„Umfjöllunarefnið er, eins og í flestum okkar lögum, efnahagslegt og tilfinningalegt á sama tíma,“ segir Steingrímur Karl Teague, hljómborðsleikari Moses Hightower um texta Rögnu við lagið, sem er að þeirra sögn sumarsmellur.

Þá svarar Ragna: „Svo mætist okkar smekkur í bítinu hjá strákunum, og pottþétt margir að fara að fíla sig úr hálsliðnum við að heyra þetta!“

Hér fyrir neðan má sjá tónlistarmyndbandið sem leikstýrt var af Baltasar Breka.

Klippa: Cell7 og Moses Hightower - Thinking Hard





Fleiri fréttir

Sjá meira


×