Dingley var ráðin sem bráðabirgðastjóri D-deildarliðsins Forest Green Rovers í gær eftir að Duncan Ferguson var sagt upp störfum.
Hin 39 ára Dingley varð þar með fyrsta konan sem er ráðin sem knattspyrnustjóri karlaliðs í fjórum efstu deildum enska fótboltapýramídans.
Dingley stýrði Forest Green í fyrsta sinn í gær þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Melksham Town í æfingaleik.
„Ég er sú fyrsta og það er frábært en ég vil ekki vera sú fyrsta og eina,“ sagði Dingley eftir leikinn í gær. „Ef við viljum breytingar þurfum við fleiri konur í þessar stöður í félögunum.“
Dingley hefur verið hjá Forest Green síðan 2019 en þá var hún ráðin sem yfirþjálfari unglingastarfs félagsins.