Enski boltinn

Nýi maðurinn kenndi stuðnings­mönnum Liver­pool að segja nafnið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominik Szoboszlai var kynntur sem nýr leikmaður Liverpool í gær.
Dominik Szoboszlai var kynntur sem nýr leikmaður Liverpool í gær. Getty/Andrew Powell

Liverpool er búið að bæta við öflugum miðjumanni í liðið sitt en Íslandsbaninn Dominik Szoboszlai var kynntur sem nýr leikmaður félagsins í gær.

Liverpool keypti Szoboszlai út úr samningi hans hjá þýska félaginu RB Leipzig en hann var áður leikmaður FC Red Bull Salzburg í Austurríki.

Nafn Ungverjans gæti ollið einhverjum stuðningsmönnum Liverpool smá vandræðum en samfélagsmiðlafólkið hjá félaginu vildi hafa allt á hreinu.

Þau fengu því Dominik Szoboszlai sjálfan til að kenna stuðningsmönnum Liverpool að segja nafnið sitt eins og sjá má hér fyrir neðan.

Szoboszlai er bara 22 ára gamall en hefur samt sem áður verið landsliðsmaður Ungverja í fjögur ár.

Hann hefur alls skorað 7 mörk í 32 landsleikjum. Þriðja landsliðsmarkið var sérstaklega mikilvægt því það tryggði Ungverjum 2-1 sigur á Íslandi í uppbótatíma í umspili í undankeppni EM 2020 og um leið sæti á EM.

Szoboszlai skoraði einnig sigurmark á móti enska landsliðinu í Þjóðadeildinni í júní í fyrra og sigurmark á móti Tyrkjum í Þjóðadeildinni 2020.

Szoboszlai lék með RB Leipzig í tvö tímabil og skoraði 20 mörk í 91 leikjum í öllum keppnum af miðjunni.

Á síðasta tímabili var Szoboszlai með sex mörk og átta stoðsendingar í 31 leik í þýsku deildinni og eitt mark og tvær stoðsendingar í átta leikjum í Meistaradeildinni. Meistaradeildarmarkið skoraði hann á móti Shakhtar Donetsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×