Enski boltinn

Fjögurra ára sonur Foden strax kominn með tvær milljónir fylgj­enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Foden og Ronnie sonur hans fagna með bikarinn eftir sigur Manchester City í Meistaradeildinni.
Phil Foden og Ronnie sonur hans fagna með bikarinn eftir sigur Manchester City í Meistaradeildinni. Getty/Alex Livesey

Ronnie, sonur Phil Foden, sló í gegn þegar hann skemmti sér og leikmönnum Manchester City eftir að liðið vann Meistaradeildina á dögunum.

Manchester City liðið skrifaði söguna með því að verða aðeins annað enska félagið til að vinna þrennuna og Ronnie vann hug og hjörtu stuðningsmanna í mörgum myndböndum frá sigurhátíðinni.

Ronnie er bara fjögurra ára gamall en hann setti engu að síður upp sína eigin Instagram síðu með góðri hjálp foreldra sinna.

Það vantaði ekki viðbrögðin því Ronnie fékk milljón fylgjendur á aðeins fjórtán tímum.

Fyrsta færslan var geggjuð mynd af honum á öxlum föður síns að gefa stuðningsmönnum Manchester City fimmu á leið sinni inn til búningsklefa.

Stuðningsmenn City hafa kallað strákinn „El Wey” og hann átti mörg skemmtileg móment í titilfögnuði liðsins.

Pabbinn Foden er aðeins 23 ára gamall en er engu að síður búinn að vinna ensku deildina fimm sinnum, enska bikarinn tvisvar, enska deildabikarinn fjórum sinnum og nú Meistaradeildina einu sinni. Þetta gera alls ellefu stórir titlar og við bætast síðan tveir Samfélagsskildir.

Hér fyrir neðan má sjá fyrstu færslu Ronnie Foden en Instagram síðan hans er nú komin með yfir tvær milljónir fylgjenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×