Enski boltinn

Guardiola kveður eftir tvö ár

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola hefur nú unnið Meistaradeild Evrópu með bæði Barcelona og Manchester City.
Pep Guardiola hefur nú unnið Meistaradeild Evrópu með bæði Barcelona og Manchester City. Getty/Robert Michael

Pep Guardiola vildi lítið tjá sig um framtíð sína eftir að hafa klárað að vinna þrennuna með Manchester City um helgina, með sigri gegn Inter í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Virtir miðlar á borð við The Times og The Guardian segja hins vegar ljóst að Guardiola sé ekki á förum frá City í sumar, eftir að hafa stýrt liðinu í fyrsta sinn til sigurs í Meistaradeildinni.

Spánverjinn framlengdi samning sinn við City í nóvember síðastliðnum og samþykkti að stýra liðinu fram til sumarsins 2025.

The Guardian segir að Guardiola sé hins vegar staðráðinn í að yfirgefa City við lok samningstímans.

Guadiola tók við City sumarið 2016 og segir The Guardian að þá hafi allir reiknað við því að hann yrði ekki lengur en þau þrjú ár sem fyrsti samningur hans kvað á um.

Guardiola hafði stýrt Barcelona og Bayern München og talið var að hann vildi taka við ítölsku liði eftir tímann hjá City, til að vinna meistaratitla í fjórum bestu deildum Evrópu.

Nú er hins vegar talið að Guardiola hafi skipt um skoðun og sé mögulega til í að taka næst við landsliði.

Guardiola vonast til þess að fyrirliði City, Ilkay Gündogan, skrifi undir nýjan samning til eins árs við félagið en samningur hans rennur út í þessum mánuði. Þessi 33 ára miðjumaður er með þriggja ára samningstilboð frá Barcelona og er einnig í sigti félaga í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×