Enski boltinn

Fyrr­verandi kærasta Antony sakar hann um heimilis­of­beldi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antony var að klára sitt fyrsta tímabil sem leikmaður Man United.
Antony var að klára sitt fyrsta tímabil sem leikmaður Man United. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Fyrrverandi kærasta Brasilíumannsins Antony, leikmanns Manchester United og brasilíska landsliðsins, hefur sakað hann um beita sig heimilisofbeldi og haft í hótunum við hana þegar þau voru saman. Um er að ræða fjögur atvik samkvæmt ESPN í Brasilíu.

Samkvæmt hinum ýmsu fjölmiðlum í Brasilíu fór Gabriela Cavallin, fyrrverandi kærasta leikmannsins, til lögreglu í gær – mánudag – og gaf skýrslu. Kemur fram að hún hafi sýnt lögreglunni myndir sem sýndu bæði sár sem leikmaðurinn á að hafa orsakað sem og skjáskot af skilaboðum þar sem hann hafði í hótunum.

Samkvæmt ESPN í Brasilíu er um að ræða fjögur atvik:

  • Það fyrsta var í júlí á síðasta ári þegar Cavallin var komin 17 vikur á leið. Hún missti fóstrið síðar meir.
  • Annað atvik átti sér stað í janúar þar sem hann réðst að henni. Á endanum hlúðu tveir af læknum Manchester United að henni.
  • Þriðja atvikið sneri að því þegar Antony skemmdi síma hennar og réðst að henni.
  • Fjórða atvikið átti sér stað í maí samkvæmt ESPN í Brasilíu. Ku Antony hafa hringt í hana og hótað því að drepa hana ef hann sæi hana með öðrum karlmönnum.

Antony er 23 ára gamall og gekk í raðir Manchester United sumarið 2022 eftir að hafa blómstrað hjá Ajax í Hollandi. Hvorki Man United né Antony sjálfur hafa tjáð sig um málið.

Man Utd er með rannsókn í gangi á máli Mason Greenwood en leikmaðurinn hefur ekki spilað eftir að hafa verið kærður fyrir nauðgun og haft í hótunum við þáverandi kærustu sína. Málið var látið niður falla en Man Utd hefur gefið út að hann spili ekki fyrr en rannsókn félagsins sé lokið.


Tengdar fréttir

Nike vill ekkert með Greenwood hafa

Mason Greenwood, leikmaður Manchester United, hefur ekki fengið nýjan samning við bandaríska íþróttavöruframleiðandann Nike þrátt fyrir að hann hafi ýjað að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×