Enski boltinn

Gary Neville las mikið í hnefafagn Klopp í leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar hér sigri á Leicester City í gærkvöldi.
Jürgen Klopp fagnar hér sigri á Leicester City í gærkvöldi. Getty/Catherine Ivill

Liverpool gefur ekkert eftir í eltingarleik sínum við Meistaradeildarsæti og vann sinn sjöunda deildarleik í röð í gærkvöldi.

Eftir leikinn var Manchester United goðsögnin og knattspyrnusérfræðingurinn Gary Neville spurður að því hvort að Newcastle og Manchester United þyrftu að hafa áhyggjur af Liverpool á lokasprettinum.

Liverpool er nú einu stigi á eftir bæði Manchester United og Newacastle en Liverpool menn hafa hins vegar leikið einum leik meira og eiga því bara eftir tvo leiki á tímabilinu.

Gary Neville las mikið í fögnuð knattspyrnustjórans Jürgen Klopp í leikslok. Klopp var búinn að afskrifa Meistaradeildarsæti fyrir löngu en sigurgangan undanfarnar vikur hefur vakið upp vonina á nýjan leik.

Eru leikmenn Manchester United og Newcastle að horfa stressaðir yfir öxlina á sér?

„Já þeir hafa verk að vinna,“ sagði Gary Neville og hélt áfram:

„Litla hnefafagnið hans Jürgen Klopp í lokin sýnir, hvort sem þú ert leikmaður Manchester United eða Newcastle, að hann er að koma og hann er þarna að senda þeim skilaboð,“ sagði Neville.

„Þessi tvö lið þurfa að klára sín mál því Liverpool mun vinna tvo síðustu leiki sína. Ég held að Newcastle og Man. United geti gleymt því að Liverpool sé að fara að tapa stigum,“ sagði Neville.

„Þau þurfa að klára sína leiki því annars enda þau ekki meðal þeirra fjögurra efstu,“ sagði Neville.

Neville talaði jafnframt um það að hann væri stressaðri sem leikmaður Newcastle en sem leikmaður Manchester United þar sem Newcastle ætti erfiðari leiki eftir að hans mati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×