Elín Hall skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún fór með aðalhlutverk í kvikmyndinni Lof mér að falla árið 2018. Síðan þá hefur hún stimplað sig inn í íslenskt tónlistar- og leiklistarlíf af miklum krafti. Undanfarna mánuði hefur hún svo farið með hlutverk Reiða Bubba í sýningunni Níu líf og hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína.
Lagið Júpíter er fyrsta lag af væntanlegri plötu Elínar sem kemur út í haust. Að þessu sinni fékk hún hina vinsælu söngkonu GDRN til liðs við sig en hún var meðal annars valin söngkona ársins á Hlustendaverðlaununum á síðasta ári.
Lagið kom til hennar í draumi
Elín samdi bæði lag og texta og er lagið á persónulegu nótunum.
„Lagið kom til mín fyrir rúmlega tveimur árum síðan þegar ég var mjög týnd með í hvaða átt ég vildi stefna. Mig dreymdi lagið og vaknaði með viðlagið á heilanum,“ segir Elín.
„Júpíter táknar nýtt upphaf fyrir mig. Það fjallar um að kveðja gamlan vítahring. Maður þarf að loka hurðinni alveg svo að aðrar opnist. Það er bæði vont en líka fallegt.“
Lagið má hlusta á hér að neðan. Upptökustjórn og útsetningu annaðist Elín ásamt Reyni Snæ.