Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - FH 24-24 | Allt jafnt í baráttunni um Hafnafjörð

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Það er ávallt hart barist þegar FH og Haukar mætast.
Það er ávallt hart barist þegar FH og Haukar mætast. Vísir/Snædís Bára

Þrátt fyrir að Haukar væru tveimur mörkum undir gegn nágrönnum sínum í FH þegar lítið var eftir af leik liðanna í Olís deild karla í handbolta þá tókst þeim að skora tvívegis og jafna þar með metin. Bæði lið fengu færi til að vinna leikinn en það gekk ekki eftir og lokatölur því 24-24.

Leikurinn fór hægt af stað og voru það Haukar sem skoruðu fyrstu tvö mörkin og það tók um fimm mínútur fyrir FH að skora fyrsta markið. Bæði lið voru rög sóknarlega og þegar um stundarfjórðungur var liðinn var staðan 3-4 fyrir FH. 

FH-ingar komu sér í þriggja marka forystu 7-10 þegar tæplega tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks en Haukarnir gáfu þá í og skildu liðin jöfn 11-11 í hálfleik. 

Liðin skiptust á að taka forystu í seinni hálfleik. FH-ingar byrjuðu betur og voru með tveggja marka forystu þegar fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Haukarnir tóku svo við keflinu en þegar stundarfjórðungur var til leiksloka var staðan 18-19 fyrir FH. 

Þegar tæplega fimm mínútur voru eftir af leiknum voru FH-ingar tveimur mörkum yfir 22-24. Adam Haukur Baumruk minnkaði muninn fyrir Hauka og svo jafnaði Ólafur Ægir 24-24. Bæði lið áttu misheppnað skot í síðustu sókninni og lokatölur því 24-24. 

Afhverju varð jafntefli?

Þetta virðist vera uppskriftin þegar að þessi lið mætast. Það er allt í járnum allan leikinn og mögulega Hafnfirðingum fyrir bestu að liðin skilja jöfn. Bæði lið klikkuðu í síðustu sókninni og svo voru tæknifeilar sem telja mikið í þessari viðureign. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Haukum var Stefán Rafn Sigurmannsson atkvæðamestur með sex mörk. Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Adam Haukur Baumruk voru með fimm mörk hvor. 

Stefán Rafn skoraði sex mörk fyrir HaukaVísir: Snædís Bára

Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson atkvæðamestur með sex mörk. Birgir Már Birgisson var með fjögur mörk. Phil Döhler varði vel í markinu, klukkaði tólf bolta, 34% markvarsla. 

Hvað gekk illa?

Hjá Haukum var sóknarleikurinn ragur á köflum þar sem að þeir sendu út af eða misstu boltann frá sér. Varnarleikurinn var ágætur bróðurpart leiks en vantaði upp á markvörsluna. 

Hjá FH var hik á sóknarleiknum í byrjun leiks en virtist koma taktur í hann er leið á leikinn. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á fimmtudaginn næsta. Þá tekur FH á móti ÍBV kl 18:00 og Haukar sækja Fram heim kl 19:30

Ásgeir Örn Hallgrímsson: „Sóknarleikurinn var mjög stirður á mjög löngum köflum í leiknum“

Ásgeir Örn, þjálfari Hauka, var ósáttur með sóknarleikinn í kvöldVísir: Snædís Bára

„Ég er hundsvekktur. Eins og allir sáu þá vorum við í bullandi séns að vinna leikinn þannig ég er mjög svekktur en við tökum stigið. Þeir fengu síðustu sóknina og ég er ánægður með að við héldum það út,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka svekktur eftir jafntefli á móti FH í kvöld.

„Við skorum bara 24 mörk og sóknarleikurinn var mjög stirður á mjög löngum köflum í leiknum og það var það sem að gekk frekar illa fannst mér.“

Haukar eru í 8. sæti í deildinni og vill Ásgeir sjá liðið klifra upp töfluna en til þess þarf að laga sóknarleikinn. 

„Það er stutt í leik og við þurfum að þjappa okkur saman. Við erum í þessum leik að hvert stig telur fyrir okkur og við erum að reyna fara upp töfluna. Við þurfum að þétta okkur vel saman og laga sóknarleikinn eins og augljóst er.“

Ásbjörn Friðriksson: „Ég veit ekki hvað maður er búin að gera mörg jafntefli við Haukana“

Ásbjörn var svekktur í leikslokVísir: Snædís Bára

Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, var svekktur eftir jafntefli á móti Haukum í dag. FH-ingar áttu góða spretti í leiknum þar sem þeir komu sér yfir en náðu ekki að halda forystunni og því skildu liðin jöfn.

„Ég er svekktur að við hefðum ekki náð að klára þetta. Við erum tveimur mönnum fleiri í smá tíma í seinni og fáum þá tvær brottvísanir sjálfir. Svo getum við komist þremur mörkum yfir en við náum ekki að breika það og þeir skora alltaf þegar að þeir þurfa. Þetta var stál í stál í lokin, fínt stig en leiðinlegt.“

Aðspurður hvað hafi vantað í leik liðsins til þess að ná í tvö stig sagði Ásbjörn þetta:

„Við erum tveimur mönnum fleiri í hálfa mínútu áður en að við fáum sjálfir tvisvar tvær og það var ágætt að sá kafli fór jafnt. Haukarnir eru hörkulið á þeirra heimavelli og þeir einhvern veginn að skera sig úr snörunni hérna. Mér fannst þeir vera að spila góðan varnarleik, þeir áttu í erfiðleikum með að skora en seigir og náðu mörkum. Við höktum aðeins í sóknarleiknum síðustu fimm.“

FH-ingar hafa átt erfitt með að vinna Hauka á Ásvöllum en það eru rúmlega fimm ár síðan þeir unnu Hauka á útvelli. 

„Það hafa yfirleitt verið hörkuleikir hérna. Við töpuðum með einu í fyrra eða tveimur í hörkuleik, tvö jafntefli af síðustu fjórum. Það gengur ekkert afleitlega hérna spilalega séð en við erum ekki að ná að loka leikjunum. Ég veit ekki hvað maður er búin að gera mörg jafntefli við Haukana í gegnum tíðina. Spilalega séð held ég að þetta sé ekkert afleitt við höfum spilað verr í sigurleikjum í deildinni en leikjum hérna. Við höfum ekki náð að loka þessum leikjum á útivelli en höfum náð að loka þeim á heimavelli.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira