„Ég var bara að gera minn hlut. Ef fólki líkaði ekki við það, þá myndi ég hvort sem er halda áfram að gera það.“
Þórhildur Helga mætti í Bakaríið á Bylgjunni morguninn eftir og ræddi Idol ævintýrið og tónlistina en hún var að gefa út nýtt lag um helgina.
„Það er búið að vera mjög gaman, það er skrítið að vera ekki að keppa í þessu lengur en á sama tíma er ég líka smá glöð því þetta var stressandi.“
Hljómsveitin hennar heitir Ókindarhjarta og eru margir tónleikar fram undan að sögn Þórhildar Helgu. Lagið þeirra Dystópíski draumurinn er hægt að heyra á Spotify.
Samheldin systkini
Þórhildur Helga hóf Idol keppnina með bróður sínum, en hann komst ekki í átta manna úrslitin. Hún segir að það hafi verið skrítið að upplifa það.
„Hann er búinn að vera svo miklu lengur í tónlist en ég.“
Fékk Þórhildur Helga samt mikinn stuðning frá bróður sínum. Systkinin gera tónlist saman og eru með stúdíó heima.
„Ég hjálpa honum stundum að syngja í lögin hans.“
Skrópaði í skólann
Nú þegar Idol vegferð Þórhildar Helgu er lokið, mun hún sakna fólksins sem hún kynntist með þáttökunni.
„Ég var mest leið yfir því að ég mun ekki hitta þetta fólk aftur. Sérstaklega af því að þetta var loksins eitthvað fólk sem ég náði að tengjast við út af tónlistinni.“
Síðustu mánuðir hafa snúist um Idolið og viðurkennir Þórhildur Helga að það hafi bitnað á náminu. Þórhildur Helga stundar nám við MÍT og MH.
„Ég þurfti að skrópa í skólann svo mikið.“