24 milljón dollara gigg
Var um að ræða opnun á algjöru lúxus hóteli og á gestalista voru frægir áhrifavaldar, leikarar, tónlistarfólk og blaðamenn. Gestir máttu ekki taka myndefni af söngkonunni en þó nokkrir fylgdu því ekki eftir og því fylltust samfélagsmiðlar af myndum og myndböndum frá tónleikunum. Samkvæmt heimildum TMZ fékk Beyoncé 24 milljónir bandaríkjadala greidda fyrir þetta kvöld, sem jafngildir um 3,5 milljarði íslenskra króna.
THIS IS THE SOUND OF $24,000,000 HITTING THE BANK ACCOUNT #DUBAICHELLA @BEYONCE pic.twitter.com/VFavFf0C4z
— CUFF IT SZN | BEYONCE FAN ACCOUNT (@macfromnola) January 21, 2023
Í nokkrum myndböndum virðist söngkonan haltra eftir tónleikana og halda einhverjir því fram að hún hafi nýlega þurft að fara í fótaaðgerð.
Mæðgnastund
Beyoncé var hin glæsilegasta en með henni á sviðinu var sinfóníuhljómsveitin Firdaus. Hana skipa 48 konur frá Dubai sem allar voru klæddar í rauð pallíettudress.

Blue Ivy deildi sviðinu með móður sinni í laginu Brown Skin Girl sem þær sungu saman á plötunni Lion King: The Gift, frá árinu 2019.
Blue Ivy and Beyonce performing BROWN SKIN GIRL . #DUBAICHELLA pic.twitter.com/1i2xRNYf9L
— Beyoncé Charts (@beycharts) January 21, 2023
Blue Ivy, sem er nú ellefu ára gömul, klæddist rauðum pallíettu samfesting sem var hannaður af ömmu sinni, Tinu Knowles-Lawson, og Timothy White. Hún virtist ekki hafa upplifað neinn sviðsskrekk og naut sín vel á sviðinu en þessi mæðgna stund stóð upp úr fyrir marga í salnum.

Stórglæsilegt fataval
Fataval Beyoncé vakti mikla athygli en hún er þekkt fyrir úthugsaðar og þýðingarmiklar tískuákvarðanir.
Hún opnaði tónleikana í glæsilegum gulum galakjól eftir hönnuðinn Mousa Al Awfi frá Óman, sem rekur tískumerkið Atelier Zuhra ásamt dóttur sinni með höfuðstöðvar í Dubai. Á bakinu bar Beyoncé gular fjaðrir sem minna á vængi en samkvæmt Al Awfi hefur dressið verið í vinnslu síðan í nóvember og sóttu þær innblástur í sólarupprás.

Næst skartaði hún eldrauðum og glæsilegum samfesting með hanska í stíl eftir líbanska hönnuðinn Nicolas Jebran en þau unnu fyrst saman árið 2014 fyrir MTV verðlaunin og hafa í gegnum tíðina sameinað krafta sína við ólík verkefni. Samfestingurinn var skreyttur gullsteinum og gylltum útsaumi og rokkaði Beyoncé gyllta sólarkórónu við.

Fyrir lokaatriði tónleikana skipti Beyoncé svo yfir í bleikan kjól skreyttan kristöllum eftir úkraínska hönnuðinn Ivan Frolov. Frolov hannaði kjólinn í Kyiv í Úkraínu eftir að stríðið hófst en hann er enn búsettur í Úkraínu. Í samtali við Vogue um kjólinn segir Frolov: „Þetta sýnir bara að sama hvað þá munu úkraínsk merki halda áfram að sýna heiminum mótspyrnu sína og menningu.“

Umdeildir tónleikar
Ákvörðun Beyoncé að halda tónleika í Dubai hefur verið umdeild. Samkvæmt heimildum tímaritsins Stereogum tók Beyoncé engin lög af nýju plötunni sinni, Renaissance. Platan hefur vakið athygli fyrir að lofa hinseginleikann, danstónlist hinsegin fólks og svarta, en tæknilega séð er samkynhneigð ólögleg í Dubai.
Undanfarin ár hefur tónlistarfólk verið hvatt til þess að koma ekki fram í löndum þar sem mannréttindi standa höllum fæti. Nicki Minaj hætti sem dæmi við tónleika í Saudi-Arabíu árið 2019 eftir að mannréttindasamtökin The Human Rights Foundation hvöttu hana opinberlega til þess.
Fjölmiðillinn Variety veltir því þá fyrir sér hvort Beyoncé sé einfaldlega að geyma nýju plötuna fyrir atriði sitt á Grammy verðlaununum, sem haldin verða 5. febrúar næstkomandi.