Streymisveitan hefur um nokkurt skeið frestað því að taka á deilingu lykilorða milli vina og fjölskyldumeðlima. Ljóst var í upphafi árs 2019 að samnýtingin væri nokkuð stórt vandamál en fyrirtækið óttaðist að fæla neytendur frá veitunni verði lykilorðadeilingin bönnuð. Eftir að Covid-faraldurinn geisaði um allan heim bættist hressilega í áskrifendahópinn og var því ekki talin nauðsyn á að taka á vandanum þá.
Í ár hefur áskrifendum hins vegar farið ört fækkandi á meðan talið er að um 100 milljónir notenda nýti sér lykilorð annarra til að glápa. Stjórnendur fyrirtækisins hafa þá lýst því yfir í ár að búið væri að fresta því of lengi að taka á vandanum. Netflix hefur því gefið út að loku verði skotið fyrir lykilorðadeilingar við upphaf 2023 í Bandaríkjunum, og biðlar til fólks sem nýtir sér lykilorð annarra að kaupa sér eigin aðgang sjálf.