Um­fjöllun og við­töl: ÍR - Grótta 25-28 | Gestirnir skoruðu síðustu þrjú mörkin og tóku stigin tvö

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Grótta vann góðan sigur í Breiðholti í kvöld.
Grótta vann góðan sigur í Breiðholti í kvöld. Vísir/Diego

ÍR hefði með sigri í kvöld hleypt miklu lífi í botnbaráttu Olís deildar karla í handbolta en Grótta reyndist sterkari á lokakaflanum og vann þriggja marka sigur, lokatölur 25-28. Umfjöllun og viðtöl væntanleg.

ÍR byrjaði leikinn af miklum krafti og tókst Breiðhyltingum snemma að slíta sig frá andstæðingum sínum frá Seltjarnarnesi. Munurinn var fjögur mörk þegar Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, tók leikhlé eftir tólf mínútna leik. Eftir leikhléið þá fóru hlutirnir að ganga aðeins betur hjá gestunum, hægt og bítandi.

Eftir að ÍR komst í 14-9 þá náði Grótta upp 0-5 kafla þar sem ÍR fann engin svör. Grótta fór að lokum með eins marks forystu inn í leikhléið. Það var magnað þar sem liðið hafði verið fimm mörkum undir er átta mínútur voru eftir af hálfleiknum.

Heimamenn í ÍR misstu ekki hausinn við það að missa frá sér forskotið. Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi allan tímann, og á köflum var útlit fyrir það að ÍR myndi næla í sigurinn, allavega eitt stig. En Gróttumenn voru sterkari síðustu fimm mínúturnar og skoruðu síðustu þrjú mörkin í leikum. Því fóru þeir með sigur af hólmi í þessum mikilvæga leik.

Af hverju vann Grótta?

Gestirnir sýndu mikla trú og mikinn karakter með því að komast aftur inn í leikinn. Þeir voru svo betri í ákvarðanartökum sínum á lokasprettinum; ásamt því að þeir fengu með vörn og markvörslu.

Hverjir stóðu upp úr?

Báðir markverðir voru virkilega góðir. Einar Baldvin Baldvinsson er búinn að vera einn besti markvörður deildarinnar í vetur, ef ekki sá besti. Hann sýndi það í kvöld að hann gerir gæfumuninn fyrir sitt lið, sérstaklega í svona jöfnum leikjum.

Jakob Ingi Stefánsson átti stóran þátt í því að Grótta komst aftur inn í leikinn þar sem hann skoraði mörg hraðaupphlaupsmörk.

Hjá ÍR var Dagur Sverrir Kristjánsson markahæstur með átta mörk. Þá var Ólafur Rafn Gíslason öflugur í markinu og Úlfur Gunnar Kjartansson góður í vörninni.

Hvað gekk illa?

Ákvarðanartökur ÍR hefðu mátt vera betri á lokakaflanum. Þeir voru að taka slök skot á ögurstundu og voru ekki nægilega þolinmóðir hvað varðar að finna réttu skotin. Svona gerist hjá ungum liðum en menn verða að læra af þessu.

Viktor Sigurðsson skoraði fjögur mörk, en gerði það í 14 skotum. Það er léleg nýting. Þá hefur fyrirliðinn Arnar Freyr Guðmundsson átt betri leiki og hann hefði þurft að stíga meira upp í kvöld.

Hvað næst?

Bæði lið eru að fara í langa pásu. Það er jólafrí og svo er HM í handbolta í janúar. ÍR er í næst neðsta sæti deildarinnar og Grótta er með ellefu stig í níunda sæti. Það er sætt fyrir Gróttu að fara inn í svona langt frí með þennan sigur á bakinu en að sama skapi mjög súrt fyrir ÍR.

„Þetta er bara eitthvað eitt atriði“

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var skiljanlega svekktur eftir tap liðsins í kvöld.Vísir/Diego

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var skiljanlega svekktur eftir tap liðsins í kvöld.

„Þetta var stál í stál, hörkuleikur - mjög spennandi og skemtilegur. Hann var frekar vel spilaður af okkar hálfu og ég er stoltur af strákunum,“ sagði Bjarni að leik loknum.

Hann segir að það hafi verið svekkjandi að missa forskotið sem liðið hafði búið til í fyrri hálfleiknum. ,,Það var það. Við gerðum það smá klaufalega. Einn byrjaði að klikka og þá fóru allir klikka. Hann datt líka í gír í markinu og varði mjög góð skot. Að sama skapi hefðum við ekki þurft að afhenda þeim forskotið svona.”

„Eitt af því sem gerðist er að Jakob skoraði fjögur hraðaupphlaup eða eitthvað. Við vorum ekki að klára það alveg nægilega vel en við lokuðum fyrir það í seinni.“

Seinni hálfleikurinn var mjög spennandi. Hvað fór úrskeiðis í lokin?

„Ég veit það ekki. Þetta endar á marki sem þeir ná að skora úr seinustu sendingu niður í horn. Við klikkum á mjög góðu færi hinum megin. Þetta var eitt mark á milli allan tímann. Við gerðumst sekir um örfá leiðinleg mistök. Þetta er bara eitthvað eitt atriði.“

ÍR tapaði með ellefu mörkum gegn Gróttu í september. Bjarni getur tekið jákvæða punkta úr leiknum í kvöld.

„Við erum búnir að vera að spila hrikalega vel í langan tíma, erum að spila góðan handbolta. Við þurfum að verða aðeins betri. Þetta er það sama og ég er að segja alltaf; við þurfum bara meiri reynslu, æfa okkur betri og vera sterkari í þessum pressuaðstæðum. Mér fannst við betri í því en oft áður. Vonandi verðum við enn betri næst,“ sagði Bjarni að lokum.

„Ég gef honum kúdos fyrir það, hann róaði mig niður þegar ég var orðinn brjálaður“

Einar Baldvin Baldvinsson var virkilega góður í marki Gróttu í kvöld. Frammistaða hans var stór ástæða fyrir því að liðið náði að knýja fram sigur.Vísir/Diego

Einar Baldvin Baldvinsson var virkilega góður í marki Gróttu í kvöld. Frammistaða hans var stór ástæða fyrir því að liðið náði að knýja fram sigur.

„Ég er mjög sáttur. ÍR-ingarnir gefa ekkert eftir. Það er ekkert gefið þegar þú kemur inn í Skógarselið. Ég er mjög sáttur að sigla þessu heim, mjög fagmannlega gert hjá okkur í lokin.“

Grótta vann ellefu marka sigur á ÍR í upphafi tímabils en Einar segir að liðið hafi ekki verið að búast við auðveldum leik í kvöld.

„Alls ekki. Þeir eru í leik við öll liðin í deildinni. Í fyrsta leiknum vorum við frábærir. Við vorum það líka í dag en þeir eru búnir að bæta sig mikið og eru mjög sterkir á sínum heimavelli. Það er erfitt að koma hingað.“

Hann segir að trúin í liðinu sé mikil, það hafi verið aðalástæðan fyrir endurkomunni í fyrri hálfleik. Einar var orðinn æstur á slakri byrjun en trúin var alltaf til staðar hjá liðinu og það hjálpaði. ,,Trúin hjá þessum strákum og stemningin er mikil. Við höldum alltaf áfram.”

„Birgir (Steinn Jónsson) hraunaði yfir mig og sagði mér að slaka á: ‘Þetta kemur alltaf hjá okkur, hafðu trú’. Ég gef honum kúdos fyrir það, hann róaði mig niður þegar ég var orðinn brjálaður. Ég á til að detta í það en það er alltaf bara góðlátlegt. Ég var orðinn mjög vel æstur, en hann tók mig niður á jörðina og hjálpaði okkur að landa þessum sigri.“

Hvar hafði Grótta betur í baráttunni í kvöld?

„Vörn, 100 prósent. Við fengum ekki mark á okkur síðustu fjórar mínúturnar. Strákarnir voru að spila bestu vörn deildarinnar í lokin. Þetta vinnst á því. Klókindin sem við sýndum líka.“

Einar er með flesta varða bolta að meðaltali af öllum markvörðum deildarinnar. Hann er búinn að eiga mjög gott tímabil til þessa. „Tímabilið er bara hálfnað en ég er sáttur með mig. Ég stefni enn hærra og vil vera með fleiri bolta varða. Ég er sáttur með þetta hingað til ef ég er að hjálpa liðinu.“

Hann vildi lítið gefa upp þegar hann var spurður út í það hversu langt Grótta getur náð á þessu tímabili. ,,Við erum með okkar markmið en ég ætla ekki að segja meira en það.”

„Það er ekkert extra sætt að vinna þá, maður finnur bara til með þeim“

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, mætti brosandi í viðtal eftir erfiðan leik gegn ÍR. Hann var auðvitað ánægður með góðan sigur.Vísir/Diego

„Ég er mjög ánægður að taka tvö stig hérna. Það er það sem gildir. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. ÍR-ingarnir eru mjög flottir og hafa verið að spila vel. Við vissum að þetta yrði barátta til síðustu sekúndu sem þetta var. Með smá heppni hjá þeim þá hefðum við getað klúðrað þessu,“ sagði Róbert eftir leik.

Hann segist ekki hafa verið áhyggjufullur þegar liðið var fimm mörkum undir í fyrri hálfleik.

„Nei, nei - ég var alveg rólegur. Þetta var ekki sú byrjun sem við vildum og ég var auðvitað hundóánægður með það. Þeir fengu alveg að vita það. Það var samt mikið eftir og þú ert alltaf inn í leiknum. Ég var alveg slakur.“

Grótta kom sér aftur inn í leikinn, var yfir í hálfleik og landaði sigrinum að lokum. Hvað var það sem vann leikinn fyrir Gróttumenn?

„Þetta er stór spurning. Við byrjuðum illa og vorum ekki líkir sjálfum okkur. Mér fannst við spila á okkar getustigi í 40 mínútur, sem betur fer voru það síðustu 40 mínúturnar. Ég var mjög ánægður með agann og þroskann í liðinu síðustu mínúturnar. Vörnin varð betri, Einar fór að verja og alls konar svona. Það sem ég tek út úr þessu er að liðið sýndi mikinn þroska og ég er ánægður með það.“

Róbert er fyrrum landsliðsmaður og það er Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, líka. Þeir voru saman í landsliðinu á sínum tíma. Er það skemmtilegra að vinna fyrrum liðsfélaga?

„Nei, alls ekki. Ég á nokkra félaga úr landsliðinu í deildinni. Það er ekkert extra sætt að vinna þá, maður finnur bara til með þeim. Auðvitað vill maður samt vinna alla leiki,“ sagði Róbert að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira