Tónlist

„Ég er mjög tilfinningarík manneskja“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Fríd var að gefa út plötuna REBIRTH og ræðir við blaðamann um tónlistina og lífið.
Tónlistarkonan Fríd var að gefa út plötuna REBIRTH og ræðir við blaðamann um tónlistina og lífið. Harpa Thors

„Ég hef elskað tónlist síðan ég man eftir mér,“ segir tónlistarkonan Fríd en hún var að gefa út plötuna REBIRTH. Blaðamaður tók púlsinn á henni og hennar skapandi hugarheimi.

Fríd heitir réttu nafni Sigfríð Rut Gyrðisdóttir en hún segist hafa alist upp við tónlist.

„Foreldrar mínir voru alltaf að spila plötur fyrir mig og ég byrjaði mjög ung að syngja. Það var samt ekki fyrr en ég fór í tónlistarlýðháskóla í Danmörku árið 2015 að ég fattaði að tónlist væri eitthvað sem ég vildi einbeita mér að og gera að atvinnu minni líka.“

Árið 2015 áttaði Fríd sig á því að hún vildi gera tónlistina að atvinnu.Harpa Thors

Tilfinningarík, einlæg og ákveðin

Þegar blaðamaður biður Fríd að lýsa sjálfri sér sem söngkonu segir hún:

„Ég er mjög tilfinningarík manneskja og hef reynt mitt besta að koma tilfinningum mínum frá mér sem best í textunum mínum og hafa þá einlæga og frá hjartanu. 

Ég er líka mjög ákveðin og hef mjög sterka sýn yfir allt sem viðkemur listinni minni og er oft með ákveðnar hugmyndir um það hvernig ég vil að hlutir hljómi eða hvernig eitthvað eigi að líta út en ég pæli mikið í heildarmyndinni.“

Hún segir það hafa verið mjög lærdómsríkt að vinna með öðrum

„Hvort sem það er í tónlistarsköpuninni eða við gerð tónlistarmyndbanda til dæmis. Ég hef lært hvernig ég get komið hlutum frá mér sem best en einnig verið mjög opin fyrir hugmyndum annarra.“

Sækir innblástur í guðdómlegar melódíur

Við gerð plötunnar segist Frid hafa hlustað mikið á franska tónlistarkonu sem heitir Oklou.

„Ég uppgötvaði hana árið 2020 þegar hún gaf út plötuna Galore og ég hef ekki hætt að hlusta á hana síðan. Melódíurnar hennar eru guðdómlegar og allur hljóðheimurinn er svo draumkenndur að hann dregur mann inn í eitthvað ævintýri. 

Charli XCX, Rosalía, FKA Twigs og Enya eru einnig tónlistarkonur sem ég hlusta mikið á og leita í þegar ég vil fá hugmyndir og innblástur.“

Upphaf ferlisins við gerð plötunnar má rekja rúm fjögur ár aftur í tímann.

„Ég gerði lögin Anywhere og Out of It árið 2018 en öll hin lögin vann ég með Hilmari Árna Halldórssyni og við byrjuðum að vinna saman sumarið 2020. 

Við vissum ekki strax að við vildum gera heila plötu en svo þróaðist það bara þannig og lögin sem við gerðum hljómuðu mjög vel saman og lögin sem ég gerði 2018 pössuðu vel inn í hljóðheiminn sem var að myndast“, 

segir Fríd.

Fjölbreyttar tónlistarstefnur mættu njóta sín betur

Aðspurð segir Fríd að fjölbreyttar tónlistarstefnur mættu njóta sín betur í íslensku tónlistarsenunni.

„Mér hefur fundist smá erfitt að koma tónlistinni minni almennilega á framfæri og ég velti því einmitt fyrir mér hvort það sé vegna þess að ég er ekki að gera „hefðbundið“ popp eða kannski af því ég syng á ensku og Íslendingar vilji frekar heyra tónlist á íslensku?“

Hún segist alltaf vera að hugsa um leiðir til þess að fleiri geti uppgötvað tónlistina sína.

„Ég er stöðugt að reyna að finna góðan og sniðugan vettvang fyrir hana. Ein leið er að halda eigin tónleika eða halda tónleika með öðru tónlistarfólki. Ég hef gert bæði og það heppnaðist vel og var mjög gaman.“

Það er mikið um að vera hjá þessari tónlistarkonu um þessar mundir í kjölfar plötuútgáfunnar.

„Ég er að undirbúa útgáfutónleika fyrir plötuna og mig langar að halda eina í Reykjavík og eina í Garðinum á Suðurnesjunum þar sem foreldrar mínir búa og ég bjó í nokkur ár. 

Einnig er ég í ferlinu að framleiða vínyl af plötunni og það er eitthvað sem ég hef alltaf viljað gera og er mjög spennt fyrir,“ segir Fríd að lokum.

Hér má hlusta á plötuna:


Tengdar fréttir

„Konur mega bara taka meira pláss alls staðar í samfélaginu“

Gjörningahljómsveitin „The Post Performance Blues Band“ gerir allt til þess að finna velgengni í nýju kvikmyndinni BAND. Blaðamaður tók púlsinn á leikstjóranum Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur en hún segir myndina sameina gjörningalist, tónlist, kvennakraft og kvikmyndalist í góðu flæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.