Tónlist

„Verð alltaf aðeins öðruvísi skotin í henni þegar hún er uppi á sviði“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Söngkonan Margrét Rán var í góðum gír eftir að hún kom fram á Airwaves síðasta laugardag. Bryndís Hrönn kærasta hennar skemmti sér mjög vel.
Söngkonan Margrét Rán var í góðum gír eftir að hún kom fram á Airwaves síðasta laugardag. Bryndís Hrönn kærasta hennar skemmti sér mjög vel. Dóra/Vísir

Listasafn Reykjavíkur iðaði af lífi síðastliðið laugardagskvöld þar sem Iceland Airwaves hátíðin náði hápunkti sínum og þolinmóðir tónleikagestir biðu í langri röð sem einkenndist þó aðallega af gleði og fjöri. 

Þegar blaðamann bar að garði var hljómsveitin Vök að ljúka við tónleika en hann náði tali af Margréti Rán söngkonu sveitarinnar og kærustu hennar Bryndísi Hrönn.

„Ég var einmitt að reyna að telja þetta áðan en ég hugsa að þetta sé í sjöunda eða áttunda skipti sem ég kem fram á Airwaves,“ segir Margrét Rán og bætir við að tilfinningin sé extra góð í ár. „Eftir Covid, maður er að finna eitthvað sem maður hefur ekki fundið í nokkur ár. Þessi Airwaves tilfinning, hún er svo ótrúlega góð.“

Rétt á eftir Vök steig tónlistarkonan Arlo Parks á svið en hún er í persónulegu uppáhaldi hjá Margréti.

„Ég bað um að fá að spila á undan henni af því ég elska Arlo Parks og það er mitt uppáhalds atriði í ár.“

Aðspurð segir Margrét að tónleikarnir hjá Vök hafi gengið mjög vel:

„Þetta var frábært og það var ótrúlega góð orka frá áhorfendum en ég var samt í smá tíma að koma mér í gang. Svo varð þetta bara geggjað.“

Stressið nær yfirleitt ekki að ná tökum á Margréti áður en hún stígur á svið.

„Ég held að þú sért alltaf lúmskt stressaðri en ég,“ segir Margrét og horfir á kærustuna sína Bryndísi Hrönn.

„Sko ég er alltaf stressuð í byrjun og ég get ekki talað við neinn. Ég þarf bara að horfa á Margréti og anda með henni. Annars er bara alltaf jafn gaman að sjá hana koma fram, ég verð alltaf svona aðeins öðruvísi skotin í henni þegar hún er uppi á sviði,“ segir Bryndís og brosir.

Þær segjast hafa átt góða Airwaves helgi og náðu að fara á góð Airwaves deit fyrstu dagana.

„Við elskuðum snny og Gugusar var náttúrulega frábær, hún er eitthvað annað nett. Ég er ótrúlega spennt að fylgjast með henni. Svo erum við búnar að hlusta á Arlo Parks lengi og GRÓA var ótrúlega töff,“ segja þær um atriðin sem standa upp úr.

Margrét segir að árin vinni vel með sér í tónlistinni.

„Þú ert alltaf að læra meira og meira inn á þig. Það sem ég vil gera á gigg degi er að hafa allt mjög rólegt og smooth, ekkert stress. Ég vil bara geta átt rólegan morgun, drukkið kaffibollann minn, stundum gert einhverjar raddæfingar en aðallega að hafa bara rólegt.“

„Giggdagarnir eru hennar dagar, þá fylgi ég orkunni hennar,“ bætir Bryndís við að lokum.


Tengdar fréttir

Fólkið á Airwaves: Elskar íslenskan bjór og íslenska tónlist

Tónlistargleðin umlykur borgina um þessar mundir í tilefni af Iceland Airwaves og bærinn er stútfullur af fjölbreyttum hópi fólks sem sameinast í ást sinni af tónlist og ýmsu öðru. Bretinn Nick Robinson er einn af þeim en blaðamaður rakst á hann á hátíðinni í gær og dásamaði hann meðal annars bjórinn hérlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×