Tónleikarnir Bylgjan órafmögnuð eru á dagskrá næstu fimmtudagskvöld kl 20:00 á Bylgjunni og Stöð2 Vísi. Fram koma Jón Jónsson, Mugison, Bjartmar Guðlaugs og Bergrisarnir, Sycamore Tree, GDRN og Magnús Jóhann, Björgvinn Halldórs, Svala og Krummi.
„Nú erum við að gera þetta í annað sinn. Þetta heppnaðist alveg ótrúlega vel síðast, að vísu vorum við í miðjum takmörkunum vegna heimsfaraldurs en núna vorum við í Bæjarbíói með stútfullan sal af fólki,“ segir Ívar Guðmunds dagskrárstjóri Bylgjunnar í samtali við Lífið.
Búið er að taka upp alla tónleikana og segir Ívar að það hafi verið frábært að gera það með áhorfendur í þetta skiptið.
„Þetta var samt svo náið. Þetta er eiginlega eins og að vera með lifandi útvarpsþátt. Vala Eiríks er á sviðinu með hljóðnema og talar við tónlistarfólk á milli laga.“
Hér fyrir neðan má sjá dagskrá tónleikaraðarinnar.