Aðspurð segist Gugusar ótrúlega spennt fyrir Airwaves.
„Ég hlakka mjög mikið til en ég er líka smá stressuð, þetta er svolítið stórt og mikilvægt gigg, en ég er aðallega bara rosalega spennt.“
Hoppar til að hita upp
Tónlistarfólk undirbýr sig á ólíkan hátt fyrir sviðið en Gugusar er með einstaka rútínu:
„Alltaf fyrir gigg þá reyni ég að hoppa smá og geri upphitun, ekki radd upphitun heldur svona líkamlega. Svona rétt fyrir gigg er ég samt búin að naga neglurnar næstum af, það bara fylgir þessu bara held ég,“ segir hún hlæjandi og bætir við:
„Ég hlusta svo alltaf á allt settið mitt á meðan ég er að mála mig og klæða mig og gera mig tilbúna fyrir gigg. Þá er ég bara með heyrnartólin, hlusta í gegn og ímynda mér hvað ég ætla að gera á sviðinu.“
Dansrútínur Gugusar hafa vakið mikla athygli þegar hún er á sviði.
„Ég er með eitthvað planað, í einhverjum lögum er ég búin að semja dans en svo er ég líka að vinna með spuna.
Ég finn það á staðnum hvað hentar á þeim tíma, það kallar til mín.“
Yngri árin mótandi
Það er margt sem veitir Gugusar innblástur og í tónlistinni er það aðallega hljómsveitin Injury Reserve.
„Þegar það kemur að sviðsframkomu þá myndi ég segja kannski Sia. Hún var alltaf með dansara sem voru að dansa skrýtna dansa. Ég fattaði þetta bara um daginn, ég elskaði þetta þegar ég var yngri og nú er ég að gera svona smá svipað.
Það er margt sem mótar mann þegar maður er að alast upp sem maður fattar kannski ekki fyrr en síðar.“
Flæði og persónulegri textar
Eins og áður segir semur Gugusar lögin sín sjálf frá A til Ö. Hugmyndirnar koma til hennar á fjölbreyttan hátt.
„Ef ég sest niður og er bara: „Ég ætla að búa til lag sem á að hljóma svona“ þá gengur það yfirleitt ekki. Ég þarf að vera inni í stúdíóinu að leika mér í rauninni, byrja með einhver demó og svo vinn ég lengra og lengra með þau.
Ég átti rosa erfitt með texta þegar ég var yngri en nú er ég komin með meiri áhuga á textum og þeir ganga mikið betur. Textarnir koma betur núna. Ég hafði engan áhuga á textanum þegar ég var að byrja að semja tónlist, ég skrifaði eiginlega bara um eitthvað.
Nú er ég meira að skrifa um persónulega hluti.“
Keppnis skautakona
Gugusar byrjaði að æfa skauta þriggja ára gömul og keppti á ýmsum mótum. Hún segist geta rakið áhuga sinn á tónlist til skautanna.
„Maður keppir alltaf við tónlist í bakgrunn og ég fór að klippa tónlistina sjálf við minn dans á skautum. Svo einhvern veginn færðist áhuginn meira yfir í tónlistina sjálfa frekar en á skautum.
Kannski er það eitthvað sem hefur mótað mig hvað mest.
Líka hvað varðar framkomuna, ég var alltaf ein að keppa á skautum við tónlist fyrir framan fólk,“ segir Gugusar að lokum.