Bíó og sjónvarp

Rödd Súper Maríó afhjúpuð í nýrri stiklu

Kjartan Kjartansson skrifar
Súper Maríó er væntanlegur í kvikmyndahús á næsta ári.
Súper Maríó er væntanlegur í kvikmyndahús á næsta ári. Vísir/Getty

Aðdáendur tölvuleikjagoðsagnarinnar Súper Maríó fengu að heyra túlkun leikarans Chris Pratt á rödd hennar í fyrsta skipti í nýrri stiklu fyrir kvikmynd um ítalska píparann sem var birt í dag. Tvennum sögum fer af því hversu ítalskur hreimur Pratt þykir.

Nýtt teiknuð mynd um ævintýri Súper Maríó á að koma út á næsta ári. Hún er fyrsta myndin um tölvuleikjapersónuna ástsælu frá leikinni mynd frá 10. áratug síðustu aldar sem beið algert skipbrot.

Sérstaklega hafa aðdáendur beðið með eftirvæntingu eftir að heyra rödd Maríó en margir ráku upp stór augu þegar Chris Pratt, sem er aðallega þekktur fyrir stórar ævintýramyndir eins og Júragarðinn og Marvel-ofurhetjumyndirnar, var valinn til að ljá honum rödd sína.

Pratt lofaði fyrr á þessu ári að hann myndi ekki móðga Bandaríkjamenn af ítölskum ættum með ýktum ítölskum hreim og að röddin ætti sér enga hliðstæðu í Maríóheiminum til þessa.

Í eyrum blaðamanna Polygon hljómar Maríó í meðförum Pratt eins og hann komi frá Boston en borgin er þekkt fyrir einkennandi hreim heimamanna.

Öðrum finnst Pratt ná ítölskum blæbrigðum betur. Paul Tassi, blaðamaður Forbes, segir að Pratt sem Maríó minni sig á gamlan ítalskan frænda sinn frá Bronx-hverfinu í New York.

Fleiri þekktir leikarar tala inn á persónur í myndinni. Jack Black fer með hlutverk illmennisins Bowsers, Anya Taylor-Joy talar fyrir Ferskju prinsessu, Charlie Day leikur Luígí, grænklæddan bróður Maríó, og Seth Rogen túlkar górilluna Donkey Kong.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×