Grímur Atlason, einn af skipuleggjendum tónleikanna, segir gesti eiga von á kraftmiklum viðburði.
„Það verður að teljast sannkallaður hvalreki fyrir tónlistarunnendur á Íslandi að Aldous Harding leggi lykkju á leið sína til að halda tónleika hér á landi en hún er stórstjarna í Indie heiminum. Hún gaf út sína fyrstu plötu Aldous Harding árið 2014 og hefur síðan þá vakið athygli fyrir lagasmíðar og ekki síður flutning. Í mars síðastliðnum sendi hún frá sér plötuna Warm Chris og hafa dómarnir verið frábærir og lögin Fever og Lawn hafa heyrst á öldum ljósvakans síðustu vikur.“
Tónlistarmaðurinn H. Hawkline (Huw Evans) hitar upp fyrir Harding en þau eru einnig kærustupar. Hawkline er velskur tónlistar- og fjölmiðlamaður sem hóf sólóferil sinn árið 2010 og hefur gefið út fjórar plötur frá þeim tíma. Hann hefur unnið með tónlistarfólki á borð við Cate Le Bon og Kevin Morby og nú á síðustu árum með kærustu sinni, Harding.
„Í fjölmiðlaheiminum hefur hann sem dæmi unnið með samlanda sínum Huw Stephens en Stephens er tónlistaráhugafólki hér á landi sem víðar að góðu kunnur,“ segir í fréttatilkynningu.
„Harding hefur einnig sent frá sér plöturnar Party (2017) og Designer (2019) og hlutu þær einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda um allan heim,“ segir Grímur og bætir við: „Platan Designer fékk fimm stjörnur af fimm mögulegum í Q tímaritinu og The Independent. Lagið Barrel náði talsverðri spilun á Íslandi þegar það kom út í febrúar 2019.“
Aldous Harding hefur unnið síðustu þrjár plötur sínar með tónlistarmanninum John Parish sem er þekktur fyrir samstarf sitt með PJ Harvey, Eels og Tracy Chapman.
Húsið opnar klukkan 19:00 og tónleikar hefjast 20:00. Rútuferðir eru í boði á milli Reykjavíkur og Hljómahallar.