Hinn norður-írski Neill lék með Arsenal á árunum 1960-70. Hann er yngsti fyrirliði í sögu félagsins. Neill lék 275 leiki fyrir Arsenal og skoraði tíu mörk.
Árið 1970 var Neill, þá aðeins 28 ára, ráðinn spilandi þjálfari Hull City. Hann stýrði liðinu í fjögur ár og tók svo við Tottenham 1974. Eftir tvö ár þar fór hann aftur til Arsenal.
Undir stjórn Neills varð Arsenal bikarmeistari 1979 eftir 3-2 sigur á Manchester United. Í stjóratíð Neills komust Skytturnar einnig í bikarúrslit 1978 og 1980 og í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1980. Neill var rekinn frá Arsenal í desember 1983 og hætti þá afskiptum af fótbolta, aðeins 41 árs.
Neill lék 59 leiki fyrir landslið Norður-Írlands og þjálfaði það einnig um fjögurra ára skeið.