Tónlist

„Ég man varla eftir tónleikunum sökum sjóriðu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Birgitta Haukdal kemur fram á Þjóðhátíð í ár.
Birgitta Haukdal kemur fram á Þjóðhátíð í ár. Hulda Margrét/Vísir

Birgitta Haukdal er ein ástsælasta söngkona okkar Íslendinga og þaulvön því að stíga á svið fyrir framan fjöldann allan af áhorfendum. Fyrir um það bil tuttugu árum síðan spilaði hún á sinni fyrstu Þjóðhátíð með hljómsveitinni Írafár en hún kemur fram í Herjólfsdal í ár, bæði ein og með hljómsveitinni. Blaðamaður tók púlsinn á Birgittu.

Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.

Hvenær fórst þú fyrst á Þjóðhátíð?

Ég fór á mína fyrstu Þjóðhátíð einhvern tímann upp úr 2000 man ekki nákvæmlega hvaða ár er minnir að það hafi verið 2002. Þá vorum við í Írafár að koma fram. 

Mjög skrautleg minning þar sem við fórum með gamla Herjólfi frá Þorlákshöfn og bandið var ansi sjóveikt. Ég man varla eftir tónleikunum sökum sjóriðu.

Hvað finnst þér skemmtilegast við þessa hátíð?

Þjóðhátíð er falleg hátíð og algjör tónlistarveisla. Yfir henni ríkir mikil gleði og fjölskyldustemning í bland við gott partý. Er hægt að biðja um meira?

Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þú stígur á svið?

Vonandi bara góðri skemmtun og tónlist beint í æð.

Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið þitt?

Lífið er yndislegt er að verða einhvers konar þjóðsöngur Íslendinga og þykir mér vænt um það. Eins finnst mér Þar sem hjartað slær, lag Halldórs Gunnars og Sverris, sjúklega flott.

Hvernig ætlar þú að undirbúa þig fyrir stóru stundina?

Ég tek Herjólf út í ey um morguninn og ætla að njóta Vestmannaeyja fyrri part dags. Seinniparturinn fer svo í hljóðprufur, æfingar og svo framvegis. 

Ég reyni að hafa dagana frekar rólega þegar ég kem fram en það tekst nú aldeilis ekki alltaf.

Tengdar fréttir

„Það er nú ekki flóknara en það“

Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, er með frægari tónlistarmönnum okkar Íslendinga og á marga smelli að baki sér. Ásamt því að vera atvinnu rappari mun hann sinna hlutverki dómara í Idolinu sem fer af stað á Stöð 2 í vetur. Herra Hnetusmjör kemur fram á Þjóðhátíð í ár og segir að hátíðargestir megi búast við skemmtun á heimsmælikvarða.

Skjaldbökudans, panflauta og nokkur þúsund Maríubænir

Hljómsveitin XXX ROTTWEILER á fjöldann allan af lögum að baki sér og hefur komið fram víðs vegar um landið í gegnum árin. Sem dæmi er 21 ár síðan Rottweiler steig fyrst á svið í Herjólfsdalnum og er meðal atriða sem koma fram í ár. Blaðamaður tók púlsinn á Erpi Eyvindarsyni, jafnan þekktur sem Blaz Roca, meðlimi sveitarinnar.

„Hún kann að halda mér niðri á jörðinni ef hausinn fer á eitthvað flug“

Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari og gítarleikari Stuðlabandsins, sér um brekkusönginn í ár. Hann stóð vaktina í síðasta brekkusöng þar sem engir áhorfendur voru í dalnum en söng sig inn í hjörtu margra landsmanna á skjánum heima. Blaðamaður tók púlsinn á Magnúsi Kjartani, sem fór á sína fyrstu Þjóðhátíð fyrir rúmum tveimur áratugum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×