Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fórst þú fyrst á Þjóðhátíð?
Ég fór fyrst á Þjóðhátíð sumarið sem ég varð tuttugu ára minnir mig. Vinkona mín hringdi í mig eldsnemma um morguninn og sagði að hún væri búin að redda okkur og annarri vinkonu plássi í flugvél og gistingu en við yrðum að fara strax. Svo ég var búin að pakka og komin út í bíl á leið til Eyja tuttugu mínútum síðar.
Það rigndi á okkur allan tímann, ég átti ekki eina þura flík og við lentum í alls kyns ævintýrum en þetta var samt ein besta sumarhelgi sem ég hef átt.
Hvað finnst þér skemmtilegast við þessa hátíð?
Hvað það er eru margar skemmtilegar hefðir og hvað fólk er hamingjusamt. Það er alveg sérstök orka í Vestmannaeyjum og allir taka svo vel og fallega á móti manni. Íslenska sumarið á sér auðvitað engan líkan og það kristallast í þessari helgi einu sinni á ári.

Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þú stígur á svið?
Ég ætla að hafa þetta í anda sannrar kvöldvöku og verð með kassagítar með mér.
Fyrir utan að læra Þjóðhátíðarlagið í ár og syngja með þá legg ég til að fólk dusti rykið af Nylon textunum fyrir brekkuna.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið þitt?
Lífið er yndislegt. Fyrir utan að maður tengir það við sumarið og stemninguna í dalnum þá er það svo fallegt. Frábært lag!
Hvernig ætlar þú að undirbúa þig fyrir stóru stundina?
Láta mig hlakka til held ég bara. Reyna að ákveða tímanlega í hverju ég ætla að vera og svo tek ég því bara eins rólega og ég get þá daga sem ég er að koma fram. Tek mér tíma í að gera mig til. Passa taugarnar og röddina með því að og sofa og næra mig vel.