Tónlist

Spila í brúðkaupum þar sem brúðhjónin hafa kynnst á Tjarnarsviðinu undir tónum hljómsveitarinnar

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hljómsveitin Brimnes kemur fram á Þjóðhátíð í ár en hljómsveitameðlimir spiluðu fyrst á hátíðinni árið 2003.
Hljómsveitin Brimnes kemur fram á Þjóðhátíð í ár en hljómsveitameðlimir spiluðu fyrst á hátíðinni árið 2003. Aðsend

Hljómsveitin Brimnes er þaulvön að koma fram og skemmta fólki en hún spilaði á sinni fyrstu Þjóðhátíð fyrir 19 árum síðan. Allir meðlimir sveitarinnar eru fæddir og uppaldir í Eyjum og segja ekkert í heiminum jafnast á við Þjóðhátíð. Þá er í sérstaklega miklu uppáhaldi hjá þeim að sjá fólk verða ástfangið þegar það dansar saman við þeirra tóna.

Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.

Hvenær fóruð þið fyrst á Þjóðhátíð?

Við spiluðum fyrst á Þjóðhátíð árið 2003 á Tjarnarsviðinu sem aukahljómsveit þar og vorum svo á dagskránni árið eftir. Þá hét hljómsveitin Tríkot. Höfum verið á Tjarnarsviðinu síðan en skiptum um nafn 2013 og heitum nú Brimnes. Við fögnum því 20 ára Þjóðhátíðarafmæli á næsta ári.

Hvað okkur meðlimina varðar þá fórum við líklega allir á fyrstu Þjóðhátíðina okkar á fyrsta aldursárinu, enda allir fæddir og uppaldir í Eyjum.

Hvað finnst ykkur skemmtilegast við þessa hátíð?

Það skemmtilegasta við hátíðina er svo margt. Við elskum Þjóðhátíð og vitum að engin hátíð getur nokkurn tíma komist með tærnar þar sem hún hefur hælana hvað varðar skemmtilegheit og uppfyllingu eftirvæntingar.

Í okkar tilfelli er hátíðin tvíþætt. Annar hluti hátíðarinnar er framkoma okkar, þar sem við gerum það sem okkur finnst skemmtilegast að gera sem hljómsveit. Svo þegar því lýkur, þá erum við með fjölskyldu og vinum að upplifa enn eina alsæluna. Biðin eftir næstu hátíð hefst á mánudeginum eftir Þjóðhátíð og eftirvæntingin vex með degi hverjum. Það er bara ekkert í heiminum sem jafnast á við Þjóðhátíð og síðasta Þjóðhátíð er alltaf sú besta

Það sem okkur finnst hins vegar skemmtilegast er að fá fyrirspurnir um að spila í brúðkaupum þar sem brúðhjónin hafa kynnst á Tjarnarsviðinu undir tónum okkar. 

Óvísindaleg könnun okkar hefur leitt í ljós að þessi hjónabönd eru talsvert hamingjuríkari en gerist almennt og þau endast ævina út.

Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þið stígið á svið?

Hátíðargestir meiga búast við því sama frá okkur og undanfarin 19 ár. Það verður ósvikin Þjóðhátíðarstemmning á Tjarnarsviðinu og dúndrandi fjör.

Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið ykkar?

Það er erfitt að gera upp á milli Þjóðhátíðarlaganna. Sennilega er lagið „Ég veit þú kemur“ í mestu uppáhaldi, þó svo að önnur þjóðhátíðarlög séu líklegri til að rífa upp stemmninguna á pallinum.

Ætli lag Bjartmars og Jóns Ólafssonar „Í brekkunni“ sé ekki það Þjóðhátíðarlag sem við spilum hvað oftast, okkur finnst það ansi gott.

Hvernig ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir stóru stundina?

Undirbúningur hefur staðið yfir frá því á mánudegi eftir þjóðhátíð 2019, þetta er allengsta undirbúningstímabil sem við höfum tekið. Það er engin heilög rútína þannig sem er í gangi. Við hittumst samt alltaf fyrir Þjóðhátíð og tökum eina extra æfingu fyrir giggið og komum okkur í gírinn. Svo er það ófrávíkjanleg regla að við hefjum leik á Mannakornsslagaranum „Garún“.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×