Vatnið er algjör perla að veiða en það virðist engu að síður vera eitthvað í gangi því veiðin hefur verið mjög dræm í sumar. Það komu nokkrir ágætir dagar í maí en flestir sem Veiðivísir hefur fengið upplýsingar frá, og þetta eru veiðimenn sem hafa áratuga reynslu við vatnið, segja að það sjáist varla bleikja í vatninu. Júní sem venjulega er einn besti tíminn hafi verið afleitur og það er ekki bara veður sem þar ræður för því á þessum fáu góðu dögum sem hafa verið við vatnið hefur varla sést vök.
Björn Guðmundsson hefur veitt í vatninu í 30 ár og segir stöðuna greinilega ekki góða. "Í maí 2022 fór ég tvær ferðir í maí og veiddi enga bleikju og sá ekki fisk. Í júní er ég búinn að fara þrjár ferðir og hef fengið 4 bleikjur. Hef ekki enn séð fisk fyrir utan þá sem tóku hjá mér. Ég fór á Leirutá í gær í mjög góðu veðri og sá vel ofan í vatnið. Ég sá ekki einn einasta fisk og varð ekki var þótt ég kastaði á alla helstu blettina þarna sem ég þekki eins og lófana á mér enda hef ég þarna veiðireynslu upp á um 400 ferðir á 30 árum. Á sama tíma voru kunningjar mínir á Öfugsnáða. Annar þeirra setti í 1 bleikju, en þeir urðu ekki meira varir og sáu ekki fisk. Þeir hittu mjög vanan veiðimann, sem var þá búinn að prófa í Vatnskoti, Nautatanga og víðar og varð hvergi var" sagði Björn í samtali við Veiðivísi.
Hann hefur haldið góða veiðibók undanfarin og og niðurstaðan er þessi. Sumarið 2013 veiddi Björn 148 bleikjur í 19 ferðum (7,8 að meðaltali í ferð). 2019 veiddi hann 55 bleikjur í 17 ferðum (3,2 bl. í ferð), 2020 veiddi hann 46 bleikjur í 16 ferðum (2,9 bl. í ferð). 2021 veiddi ég hann bleikjur 13 ferðum (1,9 bl. í ferð). Það er á öllu greinilegt að það þarf að rannsaka frekar hvað veldur þessari augljósu fækkun bleikjunnar í vatninu.