Benni segir lagið smekkfullt af sól og sumardansi en snertir, eins og öll betri popplög, einnig á myrkari hliðum tilverunnar. Eins og þegar gúmmíið klárast og fílíngurinn breytist og verður annar.
Engar tilviljanir
„Sú hugmynd leitaði á mig að gera svona píanóballöðu stuðlag, svo ég prjónaði saman þennan einfalda hljómagang og fann svo næsta texta sem beið í bókinni minni og söng hann ofaná.
Tilviljanirnar eru oftast það sem virkar best og yfirleitt alls engar tilviljanir ef út í það er farið. Ég uppgötvaði eftir söngupptökurnar að ég hafði sungið „gúmmíið“ í staðinn fyrir „lakkið„, sem stóð í upphaflega textanum, en ég er mun sáttari við að gúmmíið sé búið, það er mikið betra fyrir lagið.
Svo fékk ég herskara fólks í stúdíóið mitt til að leika á öll heimsins hljóðfæri, sonur minn söng meira að segja drengjakórs línuna,“ segir Benni.

200 rásir
„Þetta lag sprengdi algjörlega öll mín eldri met í útsetningum og upptökufræðum, sem gerði hljóðblöndun svolítið snúna (með 200 rásir að malla saman). Það gekk svo ágætlega á endanum með hjálp ráðgjafa og sáluhjálpara, en Prins Póló hefur reynst mér best í þeirri deild, enda hefur hann meistaragráðu í hljóðblöndun popplaga. Arnar Guðjónsson hraðaði svo örlítið á laginu og masteraði og smurði kreminu á þessa rjómatertu sem kom út í dag, á 17. júní.“
Lagið er flutt af Benedikt H. Hermanssyni, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Inga Garðari Erlendssyni, Kára Hólmari Ragnarssyni, Elsu Kristínu Sigurðardóttur, Sturlaugi Jóni Björnssyni, Tuma Árnasyni, Þorláki Benediktssyni og Lornu Gilfedder. Benedikt tók upp og mixaði og Arnar Guðjónsson masteraði.
Texti lagsins:
Held ég sé eitthvað leiður
Var að gera upp gamlar erjur
kannski er ég bara þreyttur
af því að gúmmíið er búið
og fílíngurinn er annar og breyttur