Handbolti

„Ég vil fá fullan Krika á fimmtudaginn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, var sáttur með sigur sinna manna í kvöld.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, var sáttur með sigur sinna manna í kvöld. Vísir/Vilhelm

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, var eðlilega í himinlifandi eftir öruggan sigur sinna manna í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í kvöld. Sigurinn tryggði liðinu oddaleik sem fram fer í Kaplakrika á fimmtudaginn kemur.

„Mér líður mjög vel, ég get ekki neitað því. En vá, ég var ekki rólegur. En mér líður ógeðslega vel,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga eftir að liðið tryggði sér oddaleik gegn Selfyssingum í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

FH-ingar byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og komust fljótt í 5-0. Einar Örn Sindrason átti stóran þátt í góðum sóknarleik gestanna í upphafi leiks og Sigursteinn hrósaði honum, sem og öðrum leikmönnum liðsins

„Ég er bara ótrúlega ánægður með framgang Einars og alls liðsins. Við töluðum um það að við vildum fá liðsframmistöðu og við fengum það svo sannarlega.“

Gestirnir frá Hafnarfirði fengu fullt af auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum í kvöld og Sigursteinn segir að það hafi verið einn af þeim þáttum sem liðið ætlaði að bæta á milli leikja.

„Við vorum ekki ánægðir með það hvað við fengum út úr þeim þætti í seinasta leik og við töluðum mikið um það að við ætluðum að hlaupa og við gerðum það.“

Eitt af því sem skilaði öllum þessum hraðaupphlaupum var góður varnarleikur gestanna, en aðspurður að því hvort að FH-ingar væru með bestu vörn deildarinnar vildi Sigursteinn ekki taka of djúpt í árina.

„Það er ykkar að vera með svona yfirlýsingar. Við erum bara ánægðir með okkar varnarleik og við vitum svo sannarlega hvað þeir geta. Ég er bara mjög ánægður með varnarleikinn í kvöld.“

„En mig langar að nýta tækifærið og þakka þessum FH-ingum sem mættu hérna á Selfoss í kvöld. Þeir voru stórkostlegir og gáfu Selfyssingum ekkert eftir og ég vil fá fullan Krika á fimmtudaginn. Þetta einvígi á það svo sannarlega skilið og þetta eru klassa áhorfendur hjá báðum liðum. Við viljum fullan Krika.“

Að lokum sagðist Sigursteinn ekki ætla að breyta út af vananum í undirbúningi fyrir oddaleikinn sem fram fer á fimmtudaginn í Kaplakrika.

„Við undirbúum okkur bara á nákvæmlega sama hátt. Núna þurfum við bara að hugsa um líkamann, ná hausnum góðum og svo er bara ný orusta á fimmtudaginn og þá þurfum við bara að vera klárir. Við erum jafn mikið með bakið upp við vegg þá eins og í kvöld.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×