Valli segist fyrst og fremst vera í afahlutverkinu þegar hann kemur til Íslands en svo langt leiddur viðurkennir hann sig vera í Google dagatalinu að meira að segja Silja konan hans er beðin um að senda honum fundarboð ef hún vill hitta hann eða bóka hann í afmæli, leikhús og aðra tímasetta viðburði.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Á milli klukkan hálf sjö og sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja morguninn á kaldri sturtu og svo beint út á svalir að gera æfingar.
Hlusta á góða tónlsit og labba svo í vinnuna sem er um 25 mínútna gangur frá Bygdøy Allé að skrifstounni í Majorstuen.“
Skrýtnasta áhugamál sem þú hefur átt?
„Engin áhugamál eru skrítin en ég hef fengið mjög mörg áhugamál.
Ég er dellukall og þá sérstaklega í íþróttum og áhættu- og útivistarsportum.
Ég byrjaði að safna steinum þegar ég var krakki og ég er enn þannig að ef ég sé fallegan stein sting ég honum í vasann.
Einnig fékk ég áhuga á landnámshænum fyrir nokkrum árum og nú á ég ásamt Kristni félaga mínum um 800 hænur og rekum við eggjabúið Landnámsegg í Hrísey.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
Helsta verkefnið þessa dagana er að byggja upp Pipra\TBWA í Noregi og The Engine um öll Norðurlönd.
En þegar ég er á Íslandi þá er aðal verkefnið að vera afi. Ég á tvo afastráka sem ég reyni að fá að umgangast sem mest.
Einnig er ég í hópi sem er vinna að því hvernig við skipuleggjum móttöku flóttamanna frá Úkraínu og því tengt höfum við breytt matsalnum í Pipar\TBWA á Íslandi í flóttamannamiðstöð með fríum mat mánudaga til fimmtudag frá klukkan sex til klukkan átta.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég er háður Google dagbókinni minni og lifi eftir henni. Ég er orðin svo klikkaður í þessu að ef Silja konan mín vill hitta mig eða segjir mér fá því að við séum boðin í afmæli þá bið ég hana að senda mér fundarboð. Leikhúsferðir, tónleikaferðir, flug. Allt er í Google dagbókinni.
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að vera klár í svefninn upp úr klukkan tíu og er helst sofnaður um klukkan ellefu. Þar sem ég ferðast mikið þá er svefninn mjög mikilvægur og að ná rútínu strax í nýju tímabelti.“