Flugdreki er lag tengt ástinni sem er Bríeti hugleikin þegar kemur að texta- og lagasmíðum og kom þetta lag til hennar hægt og rólega yfir tvo daga þó svo versin í laginu kæmu strax í fyrstu tilraun.
Hugmyndin kviknaði þegar Pálmi Ragnar Ásgeirsson sem vinnur tónlistina með Bríeti benti bara réttilega á að orðið Flugdreki væri „svo djöfull flott orð“ og þá fór boltinn að rúlla.
„Lagið fjallar um að sleppa takinu á flugdrekanum og leyfa honum að fljúga,“ segir Bríet.

Næstu framkomur hjá henni eru á Hlustendaverðlaunum sem eru núna haldin á laugardaginn með pompi og prakt og þar er hún einnig tilnefnd sem söngkona ársins, flytjandi ársins og fyrir lag ársins.
Tónleikar söngkonunnar í Eldborg í október vöktu mikla athygli og í maí á þessu ári mun hún endurtaka leikinn. Tónleikarnir í Hörpu tónleikar eru tilnefndir sem tónlistarviðburður ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum og ásamt því er Bríet tilnefnd sem söngvari ársins og flytjandi ársins.
Lagið Flugdreki er komið á Spotify og má einnig heyra í spilaranum hér fyrir neðan.