Báðar sveitir standa í útgáfustússi um þessar mundir, en í dag kemur út kassettuútgáfa Guða hins nýja tíma, Ég er ekki pervert ég er spæjari. Kemur hún út á vegum Ægisbrautar Records, sem grasrótargumpar og gæðablóð á Akranesi standa á bak við.
Í vikunni gáfu téðir Guðir einnig út tónlistarmyndband við lagið Kysstu mig, kvikað af Fannari sjálfum.
Alexandra Ingvarsdóttir og Anna Guðný Gröndal mynda auk þeirra Fannars og Júlíönu sveitina Börn.
Þau hafa látið tiltölulega lítið fyrir sér fara undanfarin ár en í síðasta mánuði kom út breiðskífan Drottningar dauðans á vegum Iron Lung í Seattle, þeirra fyrsta útgáfa síðan árið 2015. Platan seldist upp hjá útgefanda á aðeins tveimur vikum en enn er hægt að næla sér í eintök í flestum betri plötuverslunum landsins.
Börn sendu um svipað leyti frá sér tónlistarmyndband við lagið Vonin er drepin, þar sem meðlimir rúnta um og rokka í útúrsveigðri sjálfrennireið sveitarinnar.
Það er því „nóg er að gera hjá þessum tveimur glæsivörtum íslensku tónlistarsenunnar,“ eins og Fannar komst að orði. Og er það ekki orðum ofaukið, eftir hann liggja til að mynda átta útgáfur á árinu 2021.